8.9 C
Selfoss

Það styttist í Styrkleikana

Vinsælast

Styrkleikarnir voru haldnir í fyrsta sinn á Íslandi árið 2022 og var Krabbameinsfélag Árnessýslu gestgjafi leikanna sem haldnir voru á Selfossi. Styrkleikarnir eru íslenskt heiti á alþjóðlegum viðburði sem kallast Relay for life og haldinn er í 34 löndum víðsvegar um heiminn. Markmið viðburðarins er þrennskonar, að fagna lífinu, að minnast og sameinast í sorginni og að berjast saman gegn krabbameini. Þessi markmið fanga upplifun viðburðarins þar sem saman koma fjölskyldur, vinir, einstakingar sem hafa sigrast á krabbameini, einstaklingar sem eru í baráttunni við krabbamein og allir sameinast á kröftugan hátt fyrir málstaðinn.

Viðburðurinn snýr að því að lið skrá sig til leiks og í sameiningu halda liðin boðhlaupskefli á hreyfingu í sólarhring á táknrænan hátt líkt og sá sem berst við krabbamein gerir það allan sólarhringinn. Boðhlaupskeflinu er haldið á hreyfingu með þeim hætti sem hentar hverjum og einum þátttakenda. Allir sameinast í kraftinum sem felst í að sýna samstöðu og vinna saman að því að sýna stuðning og baráttuvilja. Ýmis afþreying og skemmtun er í gangi yfir sólarhringinn sem ætti að höfða til allra aldurshópa. Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í undirbúningi og framkvæmd leikanna og setja sinn einstaka svip á upplifun þátttakenda.

Styrkleikarnir verða haldnir í Lindex-höllinni á Selfossi 29.-30. apríl næstkomandi og er skráning hafin á heimasíðunni www.styrkleikarnir.is.

Starfsmannahópnum, vinahópum eða hvers konar hópum sem hafa áhuga á að taka þátt býðst að fá kynningu á viðburðinum og sendast beiðnir varðandi það á netfangið arnessysla@krabb.is eða í síma 892 3171.  Einnig ef áhugi er fyrir hendi að starfa sem sjálfboðaliði á viðburðinum eða einhverjar spurningar vakna, þá hvetjum við ykkur til að hafa samband.

Hlökkum til að upplifa magnaðan sólarhring með ykkur!

F.h undirbúningsnefndar Styrkleikanna
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu

 

Nýjar fréttir