7.8 C
Selfoss

Stekkjaskóli kominn í framtíðarhúsnæðið

Vinsælast

Það verður stór stund þegar kennsla hefst í nýju og stórglæsilegu húsnæði Stekkjaskóla á Selfossi á morgun, miðvikudaginn 22. mars. Gengið er inn í húsnæðið um aðalinnganginn frá Björkurstekk, þ.e. um austurinngang. Einnig er hægt að ganga inn um vesturinngang frá færanlegu kennslustofunum.

Að sögn Hilmars Björgvinssonar skólastjóra hafa flutningar gengið afar vel. „Það voru allir á haus á fimmtudag og föstudag í síðustu viku. Síðan kom hópur frá meistaraflokki karla í handbolta á laugardaginn og hjálpuðu okkur að bera öll húsgögnin á milli húsa,“ segir Hilmar.

„Starfsmenn eru mjög spenntir, enda höfum við þurft að búa við þrengsli þetta skólaárið. Nú erum við komin í stórt og glæsilegt húsnæði,“ sagði Hilmar glaður í bragði. Hilmar tekur einnig fram að nemendur séu mjög spenntir fyrir nýja húsnæðinu, en í skólanum eru rúmlega 170 nemendur, ásamt 35 starfsmönnum. Áætlað er að nemendafjöldinn næsta haust verði á bilinu 230-250.

Stefnt er að 2. byggingaráfangi skólans verði klár haustið 2024 en í honum verður meðal annars náttúrufræðistofa, myndmenntastofa, bókasöfn, hreyfirými og félagsmiðstöð fyrir unglinga.

Nýjar fréttir