10.6 C
Selfoss

Sigurgöngu FSu lauk í Hljómahöllinni í kvöld

Vinsælast

Lið FSu í Gettu betur, skipað þeim Ásrúnu Aldísi Hreinsdóttur frá Odda á Rangárvöllum, Elínu Karlsdóttur frá Eyrarbakka og Heimi Árna Erlendssyni frá Skíðabakka í Austur-Landeyjum, laut í lægri hlut gegn Menntaskólanum í Reykjavík í úrslitaviðureign Gettu betur sem fram fór í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ nú í kvöld og luku þannig glæstri sigurgöngu skólans í ár með sóma.

Viðureignin í kvöld var gegn MR, sem reyndist fyrsti ofjarl þessa stórkostlega liðs í vetur, lokatölurnar urðu 36-25 MR í vil, en lögðu MR-ingar grunnin af sigrinum með stórkostlegri frammistöðu í hraðaspurningunum þar sem liðið náði 20 stigum á móti 13 stigum FSu. Með sigri á FSu hefur MR unnið keppnina tuttugu og þrisvar sinnum á 37 ára ferli Gettu betur, eða rúmlega 62% af öllum úrslitaviðureignum keppninnar frá upphafi.

„Við erum hæst ánægð með annað sætið, það er ekkert annað hægt í þessari stöðu“ sögðu keppendur FSu liðsins við blaðamann Dagskrárinnar/DFS.is stuttu eftir að MR-ingar tóku við hljóðnemanum. „Við erum sátt við skorið, þetta var góð keppni og góðir andstæðingar. Við erum með gæsahúð yfir því að þetta sé búið. Við erum búin að æfa síðan í desember þannig að þetta er bara besta útkoman. Þetta verður risastórt gat í dagatalinu hjá manni. En það er önnur keppni á næsta ári, maður veit aldrei hvað gerist,“ segja þau bjartsýn í lokin.

Sigurganga FSu í keppni vetrarins hófst með 26-8 stiga sigri gegn Borgarholtsskóla þann 11. janúar, viku síðar sigruðu þau Menntaskólann við Hamrahlíð 25-18. Þann 24. febrúar unnu þau lið Flensborgarskólans 21-14 og 31-26 stiga sigur gegn Verkmenntaskóla Austurlands í síðustu viku tryggði þeim að lokum sæti í úrslitaviðureign keppninnar í fyrsta sinn í 37 ár.

Við hjá Dagskránni óskum Ásrúnu, Elínu og Heimi innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur í Gettu betur í vetur, þið eruð Sunnlendingum sannarlega til sóma! Takk fyrir ykkur!

Uppfærð 21:49

Nýjar fréttir