2.3 C
Selfoss

Hljóðnemann heim 

Vinsælast

Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg.

Það er óhætt að segja að hjartslátturinn hafi komist í hæstu hæðir sl. föstudagskvöld þegar FSu minn gamli skóli sigraði  Verkmenntaskóla Austurlands í undanúrslitum Gettu betur með 31 stigi gegn 26.

Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1986 sem FSu kemst í úrslit Gettu betur en skólinn er fyrsti sigurvegari keppninnar og hafði þá betur gegn Flensborg. FSu komst í undanúrslit keppninnar árið 2019 en mætir nú í úrslitum næstkomandi föstudagskvöld Menntaskólanum í Reykjavík. Úrslitaviðureignin fer fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ þann 17. mars nk. og hvet ég ykkur öll til að mæta.

Í þrjátíu og sjö ár hefur Gettu betur verið rótgróinn hluti af sjónvarpsáhorfi landsmanna, þáttur sem sameinar kynslóðir á föstudagskvöldi, eitthvað sem erfitt er að ná á þessum síðustu og verstu. Þátturinn Gettu betur snýst líka um svo miklu meira en bara keppnina sjálfa því í þáttunum fá framhaldsskólar landsins tækifæri til að kynna sig og sína sérstöðu. Í gegnum árin hafa einnig hæfileikaríkir nemendur skólanna, söngvarar, dansarar og leikarar stigið á stokk og látið ljós sitt skína. Skemmtiatriði FSu hafa ekki verið af verri endanum þetta árið frekar en keppendurnir en frumsamið tónlistaratriði Við erum FSu flutt af sigurvegara söngvakeppni framhaldsskólanna árið 2022 Emilíu Hugrúnu og Sigríði Fjólu var glæsilegt og söngur Elísabetar Björgvinsdóttur í undanúrslitunum var einstakur. Gettu betur er því frábær vettvangur fyrir þessa hæfileikaríku nemendur til að troða upp fyrir skólann sinn í sjónvarpi allra landsmanna.

Eftir stórkostlega frammistöðu og æsispennandi undanúrslitakeppni er liðið nú eins og áður sagði komið í úrslit Gettu betur en liðið skipa þau Elín Karlsdóttir frá Eyrarbakka, Ásrún Aldís Hreinsdóttir frá Selfossi og Heimir Árni Erlendsson frá Skíðbakka III í Austur-Landeyjum en þjálfari þeirra er Stefán Hannesson ættaður úr Ölfusinu.

Innilega til hamingju með glæsilega frammistöðu gangi ykkur sem allra best á föstudagskvöld og umfram allt haldið áfram að vera þið sjálf og hafa gaman. Það veit sá sem allt veit að ég mun sitja límd við skjáinn ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum og veit að það munu fleiri fyrrum nemendur FSu gera einnig.

Fjóla St. Kristinsdóttir
Bæjarstjóri 

Nýjar fréttir