6.7 C
Selfoss

„Martröð sem var raunveruleikinn“

Vinsælast

Rétt fyrir miðnætti síðastliðinn sunnudag voru hjónin Birna Gylfadóttir og Ívar Björgvinsson að Kirkjuhvoli á Eyrarbakka í mestu makindum að horfa á þátt í sjónvarpinu. Tveir yngri synir þeirra, Daníel Örn 12 ára og Ívan Gauti 11 ára, voru sofnaðir og sá elsti, Hlynur Fannar 17 ára, var inni hjá sér að spila tölvuleik. „Allt í einu heyrðum við þessar rosalegu drunur, svo bara BÚMM, svo mikill hvellur að gardínurnar fóru á flug,“ segir Birna sem lenti í þeirri ömurlegu lífsreynslu að rafhlaða í Tt-2t Electric scooter rafmagnshlaupahjóli, sem keypt var í Húsasmiðjunni síðastliðið vor, sprakk inni í þvottahúsi hjá þeim, með þeim afleiðingum að það kviknaði í hjólinu og allt fylltist af reyk á nokkrum sekúndum.“

Eitthvað sem enginn ætti að upplifa

Ívar og Birna. Ljósmynd: Aðsend.

„Við hjónin hlupum inn í reykinn og eldinn, Ívar þurfti að skríða á gólfinu með slökkvitæki til að ná að slökkva eldinn, slíkur var reykurinn, og ég til að ná strákunum út. Ég ætlaði ekki að ná að vekja Ívan Gauta og draga hann út en það hafðist með því að draga hann fram á gang af öllum lífs og sálar kröftum. Það að vera inni í kolniðamyrkri, sjá ekkert, ná ekki að anda og reyna að koma barninu sínu út er eitthvað sem enginn ætti að þurfa að upplifa. Ívar náði með einhverjum óskiljanlegum hætti að slökkva eldinn sem logaði glatt. Slökkvilið kom, ásamt lögreglu og sjúkrabíl, og reykræsti húsið. Strákarnir sluppu, enda komum við þeim út á undraverðum hraða,“ segir Birna.

Birna með hundana tvo sem sátu stjarfir í sófanum eftir sprenginguna. Ljósmynd: Aðsend.

Þá segir Birna að mikil gæfa hafi fylgt þeim þrátt fyrir hamfarirnar. „Hlynur Fannar var tekinn í skoðun í sjúkrabílnum þar sem hann hljóp inn og út úr húsinu með neyðarlínuna í símanum á meðan við vorum inni að ná hundunum út en þau frusu bara í sófanum og við þurftum að fara inn að sækja þau. Við vorum bæði skoðuð og Ívar fékk súrefni. Við vorum sótsvört í nefi, munni og koki. Ég fann fyrir smá óþægindum við andardrátt en var annars í lagi. Þvílík gæfa! Fjölskyldan fór því eftir miðnætti á 3 mismunandi náttstaði á náttbuxum og naríum einum fata.“

Ekki er hægt að lýsa þessu með orðum

Það fór því sannarlega betur en á horfðist, en Birna þakkar fyrir að hafa ekki verið sofnuð. „Það var spurning um sekúndur að ná að vekja strákana og koma þeim út og svo var ég bara orðin blind af reyk. Ég er voða lítil í mér og hljóðin sem fylgdu sprengingunni er eitthvað sem við hjónin höfum rætt, þau óma í höfðinu á okkur. Þetta er eitthvað sem maður getur ekki lýst með orðum. Við eyddum öllum deginum í þrif í von um að geta gist heima í nótt, en það er allt óvíst í þeim efnum, eins hvort öllum fatnaði verði bjargað eða þurfi að henda. Pestin og sótið er engu lagi líkt,“ segir Birna.

Sótið er allsstaðar og ljóst að tónið á veraldlegum eigum fjölskyldunnar er verulegt. Ljósmynd: Aðsend.

Þrátt fyrir að hafa eytt mest öllum deginum eftir brunann í þrif, þurfti fjölskyldan að leita að öðrum náttstað því húsið er enn óíbúðarhæft og tjónið töluvert meira en fyrst leit út fyrir þegar þau fóru að fara yfir eigurnar. Birna og Ívar heimsóttu tryggingafélagið sitt daginn eftir brunann. Þar kom í ljós að tryggingarnar þeirra duttu niður fyrir innan við mánuði. „Það var mitt klúður að átta mig ekki á þessu en við erum ótryggð og þetta lendir því allt á okkur, tilfinningalegt og veraldlegt tjón. Við erum alveg sigruð,“ segir Birna.

Þakklát en aum á sálinni

„Þetta var eins og að vera stödd í martröð sem var raunveruleikinn. Það að ná ekki að vekja Ívan Gauta og þurfa svo að beita öllum mínum kröftum til að draga hann út úr reyknum á meðan Ívar fór enn lengra inn og náði að slökkva eldinn var ólýsanlegt. Við getum notað fötin sem við erum í og næstu dagar munu fara í að fara yfir það sem náðist að bjarga og sjá hvað sé hægt að þvo. Við vitum lítið að svo stöddu og húsið er óíbúðarhæft,“ segir Birna.

Birna í þvottahúsinu þar sem allt stóð í ljósum logum nokkrum klukkustundum áður. Ljósmynd: Aðsend.

Birna er þakklát fyrir góða vini sem hafa hjálpað þeim: „Við eigum ótrúlega vini sem voru mættir í dag, daginn eftir brunann, með hanska til að hjálpa okkur að henda ónýta dótinu okkar. Við erum aum á sálinni en um leið þakklát fyrir að ekki fór verr. Við þurfum að vinna úr þessu og standa saman en þetta er sárt. Við erum komin með samastað á meðan við getum ekki búið heima.“

Þau sem vilja styðja við bakið á fjölskyldunni sem á um sárt að binda eftir brunann geta lagt inn á reikning 0370-26-025500, kt 060786-2409. Margt smátt gerir eitt stórt.

Nýjar fréttir