9.5 C
Selfoss

Frískápur opnar á Selfossi

Vinsælast

Minnkum matarsóun og hjálpum öðrum í leiðinni

Í síðustu viku opnaði tíundi frískápurinn í hinni ört vaxandi íslensku frískápaflóru. Sá er staðsettur við Nytjamarkaðinn á Selfossi, að Gagnheiði 32, og hefur fengið frábærar viðtökur frá því hann opnaði miðvikudaginn 8. mars.

Frískápar eru þekktir víðs vegar um heiminn en eru tiltölulega nýtt fyrirbrigði á Íslandi. Frískápur er deiliskápur sem fólk og fyrirtæki geta komið með matvæli sem yrði annars sóað og gefið áfram til þeirra sem á því þurfa að halda. Skáparnir stuðla að því að minnka mataróöryggi- og sóun og byggja upp sterkara samfélag. Kamilla og Marco, Reykvíkingar ársins 2022, komu með þessa hugmyndafræði til landsins og opnuðu fyrsta frískápinn í 101 Reykjavík í júní 2021.

Allt tómt! Ljósmynd: Dfs.is/HGL.

Þegar blaðamaður Dagskrárinnar leit við í frískápnum sl. föstudag var næstum allt tómt, en á fimmtudag voru allar hillur og skúffur drekkhlaðnar hinum ýmsu kræsingum sem einstaklingar og Almar Bakarí höfðu gefið og augljóst að þörfin fyrir Frískápinn var til staðar.

Karen Gestsdóttir er ein af þeim sem komu frískápnum við Nytjamarkaðinn á Selfossi af stað, en Facebook-hópurinn utan um frískápinn telur nú þegar ríflega 700 manns, þrátt fyrir að hafa, þegar þetta er ritað, einungis verið starfræktur í rúma tvo sólarhringa. Við hittum Karen yfir kaffibolla á föstudaginn og fengum að vita meira um þetta flotta verkefni: „Ég bjó í Vesturbænum fyrir nokkrum árum og er ennþá inni í Vesturbæjar-Facebook-hópnum. Þar sá ég að það var verið að opna frískáp hjá Neskirkju og mér fannst þetta mjög sniðugt svo ég byrjaði að kynna mér allt um frískápa, ég hafði séð þá í fréttunum áður og heyrt umræðu um þá svo ég kannaðist við hugtakið.“

Ömurlegt að henda mat

„Ég hef alltaf pælt í því hvað mér finnst ömurlegt að henda mat, til dæmis eftir veislur og viðburði og áður en maður fer að heiman í lengri tíma, hvað á maður að gera við afgangana sem maður situr uppi með? Ég vil koma þessu í góðar hendur, ég tala nú ekki um hvað allt er búið að hækka í dag, maður sér endalaust af hjálparbeiðnum eins og á Facebook, fólk að óska eftir mataraðstoð, þannig að mér fannst þetta þarft í samfélaginu, ég hef tekið eftir aukningu, bara á þessu ári, á fólki sem er að óska eftir mataraðstoð.“

Karen ákvað því að heyra í Þórdísi sem sér um Frískápinn við Neskirkju. „Hún gaf mér fullt af upplýsingum um við hvern ég gæti talað og sagði mér að Lauren Walton væri byrjuð að pæla í að setja upp skáp hérna á Selfossi. Lauren er bresk og býr á Selfossi. Þórdís talaði um að hún væri ekki héðan og vantaði kannski þessa „lókal“ tengingu þannig að ég ákvað að senda henni skilaboð. Hún var þá ekki komin með neina staðsetningu fyrir skápinn.“

„Sögðu strax já“

„Ég þekki aðeins til þeirra sem sjá um Nytjamarkaðinn, ég heyrði í þeim og spurði hvort þau vildu taka þátt í þessu og hvort þau væru til í að hafa þetta fyrir utan hjá sér, en skýlin eru alltaf utandyra svo að frískápurinn sé aðgengilegur allan sólarhringinn. Þau tóku rosalega vel í þetta og sögðu strax já. Þau þurfa að hafa þetta fyrir utan hjá sér og þurfa að skaffa rafmagn og allt svona þannig að við erum rosalega þakklátar fyrir að þau hafi viljað gera þetta. Mér finnst þetta líka alveg frábær staður fyrir skýlið,“ segir Karen glöð í bragði.

Biður enginn um neitt í staðinn

Þá segir Karen að þegar staðsetningin hafi verið komin á hreint hafi verið kominn tími til að útfæra skýlið sjálft. „Íslenskt veðurfar býður ekki upp á annað en að hafa skýli utan um frískápinn. Ég hafði samband við Byko, en þau hafa verið að styrkja verkefnin í Reykjavík. Þau sögðu bara já strax, við máttum heyra í þeim hvað við þurftum mikið eða vildum fá. Það var enginn að biðja um auglýsingar eða neitt í staðinn, það tóku bara allir rosalega vel í þetta. Svo þegar við vorum komin með grænt ljós á að fá efni þá kynntum við verkefnið á Facebook-hópnum Íbúar á Selfossi og óskuðum eftir smið, ég hef hvorki kunnáttu, þekkingu né tíma til að smíða svona skýli, verandi móðir í háskóla og vinnu,“ segir Karen og hlær.

Eitt flottasta skýlið á landinu

Frískápurinn. Ljósmynd: Dfs.is/HGL.

„Helgi Haraldsson, smiður hafði strax samband og bauðst til að gera þetta í sjálfboðavinnu. Nokkrum dögum síðar var skýlið tilbúið. Hann teiknaði þetta upp og pældi í veðri og vindum og öllu sem þurfti að pæla í og gerði þetta allt svo vel! Skýlið er rosalega flott og margir hafa sagt að þetta sé eitt flottasta skýlið á landinu og á Helgi mikið hrós skilið fyrir sitt framlag til verkefnisins. Síðan þurftum við að fá einhvern til að tengja rafmagn inn í skýlið og Ingvar Björn, sem vinnur í Nytjamarkaðnum, hafði samband við Gunnar Þór rafvirkja sem var tilbúinn til að koma og tengja þetta en maður vill auðvitað fá fagfólk í svona verkefni svo þetta sé alveg öruggt. Nytjamarkaðurinn átti allt efnið sem þurfti í raflögnina og gaf það líka, þannig að þau eru búin að vera alveg ómetanlegur stuðningur í þessu ferli,“ segir Karen.

„Þegar rafmagnið var komið þá ætlaði ég alltaf að gefa ísskápinn minn í þetta verkefni en

Skjalaskápurinn sem geymir þurrmat og matvæli sem þurfa ekki að vera í kæli. Ljósmynd: Dfs.is/HGL.

ég sá á Facebook að Guðlaug Margrét var að gefa miklu stærri og flottari ísskáp svo ég hafði samband við hana og hún var meira en til í að koma ísskápnum í góðar hendur og í svona gott málefni þannig að við fengum hann. Svo fengum við skjalaskáp sem við notum fyrir þurrvöru, eða mat sem þarf ekki að vera í kæli, við fengum hann gefins frá konu í Kópavogi. Það þurfti að koma honum á Selfoss því hann er svolítið flykki. Ég hafði þá samband við Keyrsla.is og þeir kipptu honum með og komu honum á Selfoss, bara ekkert mál!“

Frábær samvinna

Karen hafði samband við Þórdísi rétt fyrir jól, í kringum 20. desember. „Þau opnuðu ísskápinn í Vesturbænum í desember, ég var búin að sjá endalaust af fólki á samfélagsmiðlum sem var að óska eftir mataraðstoð fyrir jólin þannig að ég hefði bara viljað gera þetta strax á einum degi, korter í jól, en þetta tekur víst aðeins lengri tíma. Þannig að hugmyndin kemst af stað í lok desember og er orðin að fúnkerandi starfsemi núna, 3 mánuðum seinna. Þetta er svo frábær samvinna, boltinn rúllaði bara og það var ekkert sem stoppaði neins staðar. Rétt fyrir opnun hafði ég samband við Almar bakarí og spurði hvort þau vildu vera í smá samstarfi með okkur, gefa afganga sem seljast ekki og þau tóku mjög vel í það, gáfu okkur helling af brauði og bakkelsi. Sömuleiðis ætlar GK Bakarí að leggja verkefninu lið og gefa matvæli sem verða afgangs hjá þeim og við erum ótrúlega þakklátar fyrir þessar góðu móttökur hjá þessum flottu bakaríum sem við eigum hér á Selfossi. Lauren og vinir hennar ætla svo að sjá um að frískápurinn verði þrifinn reglulega og að allt sé eins og það eigi að vera.“

Skora á fyrirtæki að koma matvælum í frískápinn

„Við hvetjum öll til að taka þátt í að minnka matarsóun og hjálpa öðrum í leiðinni og viljum endilega skora á fyrirtæki að koma matvælum í skápinn, þetta er samfélagsverkefni sem á ekki að vera á 1-2 aðilum. Ef við leggjumst öll á eitt þá er það öllum í hag. Við viljum hvetja bæði einstaklinga og fyrirtæki til að vera dugleg að nýta sér frískápinn og Facebook-hópinn, til að taka myndir og láta vita þegar þau hafa sett eitthvað í skápinn og fá um leið auglýsingu og gott karma. Öllum er frjálst að setja í og taka úr skápnum hvenær sem þeim hentar og nýta þar með matvæli sem annars yrði hent. Við erum búin að fá þvílíkar viðtökur, strax á fyrstu klukkutímunum var fólk búið að koma með eitthvað í skápinn og fólk líka búið að koma og ná sér í. Við erum ótrúlega þakklát öllum þeim sem komu að þessu verkefni og létu það verða að veruleika! Takk!“ segir Karen að lokum.

Nýjar fréttir