6.7 C
Selfoss

Þrándarholt glæsilegt stórbýli

Vinsælast

Tíðindamaður Dagskrárinnar var á ferð í uppsveitum Árnessýslu á dögunum, og stóðst ekki þá freistingu að aka í hlaðið á bænum Þrándarholti. Þar er staðarlegt heim að líta þegar ekið er upp í Gnúpverjahreppinn gamla, mikið fjós í byggingu og greinilega kraftur í búskapnum. Í Þrándarholti búa bræðurnir Ingvar og Arnór Hans Þrándarsynir ásamt konum sínum Magneu og Sigríði Björk en Þrándur og Guðrún njóta þess að sjá afrakstur ævistarfsins komið í hendurnar á þriðju kynslóðinni sem setið hefur jörðina. Hús var tekið hjá þeim Ingvari og Magneu og drukkið morgunkaffi en þar voru þeir bræður faðir húsfreyju Gunnar og Garðar Einarssynir tvíburabróðir hans. Búskapurinn var ræddur yfir kaffinu en mörg járn eru í eldinum hjá Þrándarholtsbændum. En í byggingu er 120 kúa fjós af fullkomnustu gerð sem verður tekið í notkun með vorinu. Legubásafjós með tveimur mjaltaþjónum, burðarstíu og uppeldisaðstöðu. Vekur athygli tíðindamanns turn utan fjósveggjanna, það er þá tólf þúsund lítra mjólkurtankur. Þessi fjósbygging mun vera fjórða fjósið sem byggt er í Þrándarholti í tíð fjölskyldunnar á hundrað árum. Öll umgengni og frágangur kringum bygginguna er til fyrirmyndar, enda segir Magnea að þau hafi fundið gullnámu í hlaðinu, malargryfju.

Að lokinni fjósskoðun var gengið til vélageymslunnar og fjárhúsanna. Strax vakti móhölsóttur gemsi athygli, hnarreist með mikla athyglisgáfu. Hún var þá forystukind frá Skúla á Ytra-Álandi í Þistilfirði í eigu Gunnars Einarssonar en fóstruð þeim Magneu og Ingvari.  Ingvar fer jafnan fremstur fjallmanna með fjallsafni Gnúpverja úr af-réttinum og hlakkar hann til að sjá hversu vitsmundir gimbrarinnar verða en hún ber nafnið Djörfung. Það er greinilegt að sauðkindin er ekki bara til ánægju í Þrándarholti á svona blönduðu búi heldur gefur hún bæði arð og er hið félagslega afl sveitarinnar ekki síður en kvenfélagið, þetta var niðurstaða morgunsins. Jóhannes Sigfússon bóndi og hagyrðingur á Gunnarsstöðum sá gimbrina hjá Skúla vini sínum og orti vísu sem hann lét fylgja sem heimanmund að norðan:

Gustmikil en greind og þæg
og goðsögn smalamanna,
Djörfung verður dáð og fræg
drottning öræfanna.                                                    

Nýjar fréttir