2.8 C
Selfoss

„Sound of Silence“

Vinsælast

Kammerkór Norðurlands heldur tónleika undir heitinu „Sound of Silence“ í Selfosskirkju klukkan 16:00 þann 4. mars næstkomandi. Dagskráin var frumflutt á Norðurlandi á þrennum tónleikum í nóvember síðastliðnum og hlaut afar góðar viðtökur. Nú er tekinn upp þráðurinn á ný.

Efnisskrá kórsins er bandarísk kórtónlist og kennir þar ýmissa grasa. Flutt verða nokkur af glæsilegustu nýrri kórverkum höfuðtónskálda Bandaríkjanna. Einnig eru á efnisskránni þjóðlög, trúarleg lög og þekkt popplög – öll í nýjum og afar metnaðarfullum útsetningum. Meðal lagahöfunda má nefna Paul Simon, Eric Whitacre, Jake Runestad, Billy Joel, Ola Gjeilo, Réne Clausen og Morten Lauridsen.

Stjórnandi Kammerkórs Norðurlands er Guðmundur Óli Gunnarsson en hann nam hljómsveitarstjórn í Utrecht og Helsinki. Hann starfar sem stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands. Hann var um 23 ára skeið stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og stjórnaði kammersveitinni Caput í 20 ár. Þá starfaði hann í fimm ár sem hljómsveitarstjóri Íslensku óperunnar. Guðmundur Óli hefur einnig komið fram sem stjórnandi m.a. Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Kammersveitar Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveitar Austurlands. Guðmundur Óli hefur stjórnað ýmsum kórum í gegnum tíðina. Má þar nefna Háskólakórinn, Kór MS, Kór MA, Karlakór Dalvíkur og Kammerkór Norðurlands sem Guðmundur Óli hefur stjórnað frá árinu 2000.

Kammerkór Norðurlands var stofnaður haustið 1998. Sigurbjörg Kristínardóttir stjórnaði fyrstu tvö árin en Guðmundur Óli Gunnarsson hefur verið við stjórnvölinn síðan. Kórinn hefur á þessum tíma flutt fjölbreytta tónlist; þjóðlög, madrígala, kirkjutónverk, jafnvel kvikmyndatónlist, en fyrst og fremst einbeitt sér að flutningi íslenskra kórverka sem sum hafa verið samin sérstaklega fyrir hann.

Kórfélagar eru víða af Norðurlandi og flestir menntaðir söngvarar og tónlistarfólk sem gerir kórnum kleift að æfa í skorpum og vinna markvisst þrátt fyrir dreifða búsetu.

Kórinn hefur gefið út þrjá hljómdiska; Kammerkór Norðurlands (2010), Ljúflingsmál (2017) og Á svörtum fjörðum (2020).

Miðasala er hafin á Tix.is

Nýjar fréttir