0.6 C
Selfoss

Góðan daginn faggi

Vinsælast

Þriðjudaginn 21. febrúar heiðraði leikhópurinn Stertabenda ML með nærveru sinni en hópurinn hefur í samstarfi við Þjóðleikhúsið ferðast um landið með sýninguna Góðan daginn faggi. ML-ingar fjölmenntu á leiksýninguna en einnig voru boðsgestir nemendur úr efstu bekkjum Bláskógaskóla á Laugarvatni og Kerhólsskóla að Borg í Grímsnesi. Viðstaddir voru ánægðir með sýninguna og var teyminu ákaft fagnað í lokin.

Góðan daginn faggi er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur unninn upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar frá yngri árum og fjallar á gamansaman en einlægan hátt um aðkallandi málefni tengd hinseginleika; skömm, öráreiti og drauminn um að tilheyra. Verkið hefur ríkt fræðslugildi og brýnt erindi við íslenskt samfélag. Sýningin gekk fyrir fullu húsi allt síðasta leikár og hefur fengið fádæma góðar viðtökur meðal gagnrýnenda og áhorfenda á öllum aldri og hlaut tvær tilnefningar til Grímuverðlauna.

Höfundar og aðstandendur sýningarinnar eru hinsegin sviðslistafólk sem öll ólust upp á landsbyggðinni, Bjarni Snæbjörnsson leikari frá Tálknafirði, Axel Ingi Árnason tónskáld úr Eyjafjarðasveit og Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri frá Hrísey.

Varðandi tilgang sýningarinnar orða þau það svo vel sjálf: „Það hefur verið ásetningur okkar frá upphafi ferilsins að ferðast um landið með sýninguna, eiga opið samtal við fólk á öllum aldri og vera fyrirmyndirnar sem við sjálf hefðum þurft að halda á yngri árum. Það er einlæg von okkar að sýningin geti skapað umræður um hvernig er hægt að vinna gegn einangrun hinsegin unglinga, ofbeldi, fordómum og hatursorðræðu sem hefur sýnt sig að undaförnu að færist í aukana.“

Menntaskólinn að Laugarvatni

Nýjar fréttir