8.9 C
Selfoss

Kvenfélag Selfoss 75 ára

Vinsælast

Guðrún Þóranna Jónsdóttir.

„Tíminn líður áfram og hann teymir mig á eftir sér …“ sagði skáldið. Það er svo sannarlega staðfest og við fylgjum öll takti tímans því að ekki er annað í boði. Félögin fylgja okkur líka en taka vitanlega breytingum eftir því sem samfélagið þróast. Þær duglegu konur sem stofnuðu Kvenfélag Selfoss þann 4. mars 1948 voru stórhuga og lögðu góðan grunn að félaginu. Selfosshreppur var stofnaður ári fyrr en kvenfélagið þannig að hreppurinn og kvenfélagið áttu mikil og náin samskipti í marga áratugi. Konurnar í kvenfélaginu höfðu ákveðnar skoðanir á ýmsu sem hreppurinn þeirra kom að. Það má nefna að ekki voru neinir barnaleikvellir, engin kirkja og ekkert sjúkrahús. Vitanlega vantaði ýmislegt fleira en þessi þrjú mál urðu fyrstu stóru verkefnin sem kvenfélagið vann að þar til þau voru komin í góðan farveg. Þegar Selfosshreppur ákvað að byggja leikskóla 1965 ákvað kvenfélagið að greiða 15% af byggingarkostnaði. Kvenfélagið gerði betur því þær tóku að sér rekstur leikskólans í hartnær 10 ár. Upplýsingar um þetta framtak Kvenfélags Selfoss hefur verið skráð á skilti við Tryggvagötu þar sem leikskólinn, sem hlaut nafnið Glaðheimar, reis.

Merk saga Kvenfélags Selfoss, Þannig vinni samtök svanna, kom út 2018, á 70 ára afmæli félagsins, rituð af Sigrúnu Ásgeirsdóttur kennara og kvenfélagskonu þar sem ítarlega er rakin saga félagsins. Bókin er prýdd mörgum myndum. Kvenfélagskonur minntust 70 ára afmælisins á margan annan hátt en með útgáfu bókarinnar. Margar klæddu sig upp í þjóðbúninga og hvöttu konur í samfélaginu til þess að taka þátt í þeim viðburði Stór hópmynd var tekin fyrir utan Selfosskirkju, og birt sem forsíðumynd í Húsfreyjunni, tímariti Kvenfélagasambands Íslands.

Kvenfélag Selfoss nýtir enn sem fyrr krafta sína og fjármagn til líknar- og menningarmála í nærsamfélaginu. Dagbókin Jóra hefur verið aðalfjáröflun félagsins síðustu áratugi auk þess hefur félagið tekið að sér ýmis tilfallandi verkefni til að afla fjár. Á hverju ári eru veittir styrkir til verkefna og/eða menningarmála. Síðustu ár hefur sérstaklega verið horft til forvarnastarfs fyrir börn og unglinga. Einnig gefur kvenfélagið út fréttabréf, sem kemur út rafrænt tvisvar á ári.

Kvenfélagið á húsnæði í Selinu við Engjaveg ásamt Héraðssambandinu Skarphéðni og Sambandi sunnlenskra kvenna. Þar er rými fyrir gögn og aðstaða fyrir minni og stærri fundi og fleira.

Félagsfundir eru haldnir mánaðarlega vetrarmánuðina og fáum við yfirleitt að heyra eitthvað fróðlegt á fundum og/eða lærum eitthvað skemmtilegt. Einnig hafa verið handavinnu- og spjallkvöld á þriðjudagskvöldum sem hafa verið vinsæl. Á hverju ári eru farnar nokkar ferðir á vegum félagsins. Stundum dagsferðir en líka lengri ferðir til í heimsóknir til annarra kvenfélaga. Einnig er stundum farið í borgarferðir til framandi landa.

Það er skemmtilegt og gefandi að starfa í kvenfélagi – það er gott að koma á fundi að finna þá hlýju sem streymir frá félögunum og að kynnast konum með mismunandi bakgrunn og fjölbreyttar skoðanir. Þar gefst tækifæri til að hafa áhrif á starf félagsins og leggja samfélaginu lið. Kvenfélagskonur taka vel á móti nýjum konum í félagið. Frábært fyrir konur á svæðinu að líta við og sjá hvað er í boði hjá kvenfélaginu, félagið er líka á facebook. Núverandi formaður Kvenfélags Selfoss er Jóna Sigurbjartsdóttir.

Framtíðarsýn Kvenfélags Selfoss er að vinna enn frekar að því að styrkja góð málefni hér í nærsamfélaginu. Einnig að styðja og styrkja félagskonur til góðra verka og að efla tengsl þeirra.

Guðrún Þóranna Jónsdóttir

Heimildir: Þannig vinni samtök svanna. Saga kvenfélags Selfoss 1948-2018 .
höf.: Sigrún Ásgeirsdóttir

Nýjar fréttir