9.5 C
Selfoss

Hjálpum hvort öðru að verða betri þjálfarar

Vinsælast

Nýbökuðu hjónin, Alda Kristinsdóttir og Eyþór Stefánsson, eru dugnaðarforkar með mörg járn í eldinum. Alda kennir íþróttir og sund í Sunnulækjarskóla og Eyþór er launa- og rekstrarfulltrúi hjá barna- og fjölskyldustofu. Alda og Eyþór eru auk þess foreldrar tveggja ungra drengja og eigendur Box800, nýrrar æfingastöðvar, sem opnaði á Selfossi þann 9. janúar síðastliðinn. Dagskráin kíkti við á dögunum og fékk að kynnast þeim aðeins betur.

Alda, sem er á þrítugasta aldursári, er uppalin í Grindavík og flutti á Selfoss árið 2019. „Ég var í körfubolta öll mín æskuár og þótti fátt skemmtilegra en að skella mér á æfingu með vinkonum. Ég fór að kíkja í lyftingasalinn í íþróttahúsinu á unglingsárunum og fann strax að ég hafði mikinn áhuga á því. Eftir körfuboltann fór ég í CrossFit og hef æft það hér og þar síðan árið 2013. Ég er að ljúka master í íþrótta- og heilsufræði og bíð spennt eftir að fara að bæta við mig meiri þekkingu tengdri þjálfun.“

Eyþór, sem er þrítugur, segist hafa alist upp hér og þar; „þar sem foreldrar mínir voru í sífellu að flytja á nýja staði. Mest megnis ólst ég þó upp hér á Suðurlandi. Fyrsta íþróttin sem ég iðkaði var fótbolti en ég skipti ungur yfir í körfubolta. Eftir körfuboltann tók CrossFit við og ég hef stundað það síðan árið 2014. Ég nældi mér í þjálfararéttindi CrossFit L1 og er núna að læra Styrktarþjálfarann hjá ÍAK.“

„Iðkendur eru ánægðir og þá erum við mjög sátt“

„Við opnuðum Box800 þann 9.janúar 2023 eftir tvo mánuði af framkvæmdum í nánast tómu iðnaðarbili. Síðan við opnuðum hefur allt gengið vonum framar. Iðkendur eru ánægðir og þá erum við mjög sátt, en í Box800 bjóðum við fyrst og fremst upp á fjölbreyttar æfingar! Við hugsum um alhliða þjálfun þar sem við eflum styrk, úthald, liðleika og fleira. Æfingin sem er oftast í viku hjá okkur er Hreysti en þær æfingar eru mjög fjölbreyttar og allir geta tekið þær á sínum hraða. Við erum einnig með Styrk, Buttlift og Ólympískar lyftingar,“ segja Alda og Eyþór.

Aðspurð hver hvatinn á bakvið opnunina hafi verið segja þau: „Okkur fannst vanta persónulega æfingastöð á Selfossi þar sem öllum finnst þeir vera hluti af samfélagi. Við höfum mikla ástríðu fyrir hreyfingu og þjálfun og vildum koma því á framfæri.“

Þá segja þau að hugmyndin um að opna þeirra eigin stöð hafi mallað hjá þeim í dágóðan tíma. „Hugmyndir hrönnuðust upp hjá okkur varðandi æfingar, uppákomur og fleira tengt æfingastöð. Við vorum með hugmyndir um hvernig við vildum taka á móti iðkendum og byggja upp gott samfélag. Þegar húsnæði poppaði óvænt upp var ekki aftur snúið og við hentum okkur í djúpu laugina.“

Læra mikið af hvort öðru

Það gengur ekki öllum vel að tvinna saman sambúð og atvinnu en Alda og Eyþór virðast vera réttu megin við línuna hvað það varðar. „Mér finnst ótrúlega gott að vinna með Eyþóri! Ég á það til að stressa mig of mikið yfir hinu og þessu en hann heldur mér á jörðinni. Ég hefði líklegast aldrei farið út í eigin rekstur án hans. Við styðjum hvort annað og lærum mikið af hvort öðru,“ segir Alda og Eyþór tekur í sama streng: „Það er mjög einfalt því þetta er áhugamál okkar beggja. Við getum hjálpað hvort öðru að verða betri þjálfarar.

Nýjar fréttir