7.3 C
Selfoss

Árborg fær Kafarann að gjöf

Vinsælast

Á dögunum gaf Guðrún Arndís Tryggvadóttir, myndlistarmaður, Sveitarfélaginu Árborg málverkið „Kafarann“ sem nú hefur verið sett upp í Sundhöll Selfoss.

Jafnframt hefur hún sett upp Pop-up sýningu á átta vatnslitamyndum í Norður-Gangi sundlaugarbyggingarinnar en þær voru hluti af hugmyndavinnu hennar fyrir verkið.

Guðrún en daglegur gestur í lauginni og fannst því við hæfi að verkið fái að hanga þar til frambúðar enda sé hennar markmið að myndlist fái meira vægi og verði sjáanlegri í sveitarfélaginu Árborg. Um verkið segir hún: „Fyrir mér er sund og köfun farvegur fyrir hina stöðugu leit að svörum í djúpi sjálfsins. Verkið fjallar um þessa tilfinningu og hve allt er í raun líkt, lífverurnar, gróðurinn, vatn, eldur og jörð.“

Málverkið Kafarinn eftir Guðrún Arndísi Tryggvadóttur er málað með olíu á hörstriga árið 2021 og hangir á veggnum í ganginum sem snýr að útilauginni.

Aðspurð hvaðan hugmyndin að verkinu sé komin segir Guðrún: „Hugmyndin vaknaði þegar allt lokaðist í Covid, líka sundlaugin á Selfossi. Áður en laugin lokaði vegna heimsfaraldursins fór ég daglega í sund. Fyrir mér er sund stór hluti af mínu daglega lífi og hrein og klár nauðsyn. Ég byrjaði að vinna úr því að vera innilokuð heima í heimsfaraldri og úr varð engill sem kafar í djúpið í leit að svörum. Þannig fékk ég eins konar útrás fyrir þörfina fyrir vatnið og um leið varð engillinn eins konar persónugerving hjálpar til að komast út úr þessum heimsfaraldri. Engill sem gæti bjargað málunum ef hann finnur veiruna og skilur hvernig hægt sé að eyða henni. Einhvern veginn var það svo augjóst að við erum eins viðkvæm og allar aðrar lífverur í þessum heimi og að í raun sé allt eins. Ein lítil veira gæti eytt okkur og breytt öllum okkar vonum og draumum um ókomna framtíð. Vatnslitamyndirnar á sýningunni eru aðeins lítill hluti þeirra pælinga sem ég vann áður en að ég ákvað að mála stærra verk byggt á þessari hugmynd.“

Guðrún er fædd í Reykjavík en hefur búið á Suðurlandi síðan 2006. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, École nationale supérieure des Beaux-Arts í París og Akademie der Bildenden Künste í München þar sem hún útskrifaðist með láði.

Guðrún hefur haldið sýningar hér heima, í Evrópu og Bandaríkjunum og hlotið fjölda viðurkenninga, bæði fyrir myndlist sína og störf á sviði nýsköpunar en hún hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum, stofnað og rekið myndlistarskóla og listræna hönnunarstofu sem hún rak í Þýskalandi og hér á landi um árabil. Guðrún stofnaði einnig og rak umhverfisvefinn Náttúran.is um tíu ára skeið.

Aðalefniviður í myndlist Guðrúnar er olía á striga en hin stóru málverk hennar eru mjög persónuleg og byggjast á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni. Guðrún rekur einnig fræðslu- og útgáfufélagið Listrými og starfrækir vinnustofu sína á Selfossi. Meira um list og feril Guðrúnar má sjá á vef hennar tryggvadottir.com.

Nýjar fréttir