11.7 C
Selfoss

„Þetta verður algjör veisla“

Vinsælast

Jórukórinn á Selfossi ætlar að blása til veglegs kvennakvölds á Risinu í Mjólkurbúinu á Selfossi nú á fimmtudagskvöld. Kórinn, sem er undir stjórn Unnar Birnu Björnsdóttur, hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og setja þær markið hátt.

„Okkur þykir svo ótrúlega skemmtilegt á æfingum og tónleikum að við viljum bjóða fleirum að vera með, þó það sé ekki nema í eina kvöldstund. Á kvennakvöldinu munum við að sjálfsögðu taka nokkur lög, frumflytjum Jórudjammtexta og Júlíana hjá Ölgerðinni ætlar að bjóða okkur að smakka nýjungina Baileys light sem er ekki enn komin í allar verslanir Vínbúðarinnar svo það mætti segja að við verðum svona hálfpartinn að frumsýna þessa rjómakenndu og léttu nýjung á Íslandi, allavega á Selfossi.
Við Helga Guðrún ætlum síðan að skemmta konum af okkar stöku snilld með léttu gríni á milli atriða en á meðal atriðanna eru tískusýning þar sem okkar eigin „runway model“ úr kórnum sýna fatnað frá Motivo og Stúdíó Sport, hugsanlega sýnum við eitthvað meira sem við gætum fundið í fórum kórsins en það verður að koma í ljós.
Hermosa.is ætlar að kynna fyrir okkur allt það heitasta í unaðstækjabransanum og miðarnir inn á kvöldið gilda sem happdrættismiðar en við höfum fengið frábær viðbrögð frá fyrirtækjum á svæðinu sem vildu taka þátt með því að leggja til glæsilega vinninga. Röstí, nýji hamborgarastaðurinn í Mjólkurbúinu mathöll er til dæmis með sérstakan Jórukórs hamborgara í tilefni kvennakvöldsins og hvetjum við öll til að smakka þennan ljúffenga borgara sem er aðeins tímabundið á matseðlinum! Þetta verður algjör veisla og ættu allar konur að tryggja sér miða á það sem verður vonandi fyrsta konukvöldið af mörgum“ segir Rebekka Kristinsdóttir, meðlimur Jórukórsins.

Miðar á kvennakvöldið eru fáanlegir í forsölu í Lobbýinu, hársnyrtistofu á Hótel Selfossi til hádegis á morgun, eftir það er hægt að kaupa miða við dyrnar en húsið opnar klukkan 19:30 á fimmtudagskvöldið.

Nýjar fréttir