11.7 C
Selfoss

Óreiða við grenndarstöðvar

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg hefur sent frá sér tilkynningu vegna slæmrar umgengni við grenndarstöðvar sem eru nú á 5 stöðum í Árborg.

„Umgengni við sumar stöðvar hefur verið býsna slæm nú á nýju ári. Slæm umgengni við grenndarstöðvarnar hefur m.a. falist í því fólk hefur skilið þar eftir grófan úrgang, almennt sorp, lífrænt sorp og annað sem á alls ekki heima við eða í grenndargámunum. Grenndarstöðvar eru góður kostur fyrir heimilin til að skila flokkuðum úrgangi eins og blátunnuefni s.s pappír, plasti og smámálmum sem og gleri. Safnist áfram mikið magn úrgangs sem ekki á heima við eða í grenndarstöðvunum sem og að umgengni umhverfis stöðvarnar verði ábótavant má búast við því að þær verði teknar úr umferð á þeim stöðum,“ segir í tilkynningunni.

„Sveitarfélagið fagnar mikilli notkun á grenndarstöðvunum og verður unnið að því að fjölga grenndarstöðvum ásamt því að breyta flokkum og merkingum í kjölfar nýrra laga um meðhöndlun úrgangs.Sveitarfélagið mælist til þess að allir taki höndum saman og gangi vel um þessar stöðvar og umhverfi þeirra. Laust rusl vill gjarnan fjúka um næsta nágrenni sem er slæmt fyrir umhverfið,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Grenndarstöðvar eru á eftirfarandi stöðum í sveitarfélaginu:

Bílastæði við Sunnulækjarskóla
Bílastæði við íþróttasvæði við Engjaveg Selfossi (við íþróttasvæði, nær tjaldsvæði)
Bílastæði við innkomuna í Tjarnabyggð
Við áhaldahús sveitarfélagsins á Stokkseyri (Eyrarbraut 41)
Við Búðarstíg/innkomu að tjaldsvæði á Eyrarbakka

Að lokum benda þau hjá Árborg á að ef gámar eru fullir sé alltaf hægt að fara með úrgang á gámasvæðið við Víkurheiði, láta vita í gegnum ábendingagáttina https://abending.arborg.is/ eða hringja í verktaka sem sér um losun – símanúmer eru á grenndarstöðvunum sýnileg. Þá er fólk beðið um að sýna dálitla þolinmæði og bíða eftir tæmingu.

Nýjar fréttir