7.3 C
Selfoss

Held það fari mér ágætlega að vera í bílstjórasætinu

Vinsælast

Baldur Róbertsson, betur þekktur sem Baldur Robba, sem hefur rekið BR flutninga farsællega í um hálfan annan áratug, hefur selt fyrirtækið til Óla Ágústssonar. Dagskráin náði tali af Óla í síðustu viku. „Þetta var búið að standa til svona síðan í haust, við Baldur erum nágrannar og þekkjumst ágætlega. Við fórum eitthvað að ræða þetta, Baldur vildi selja og það kom eiginlega ekkert annað til greina en að skella sér á þetta.“

Eigendaskiptin fóru fram núna um áramótin og Óli tók formlega við þann 1. janúar. „Ég er búinn að vera að vinna í bílaumboðinu Öskju síðustu 7 árin, þar áður var ég bílstjóri og það hefur alltaf blundað í manni að vilja keyra eitthvað. Ég er að keyra alveg á fullu, sestur aftur í bílstjórasætið og held að það fari mér ágætlega bara. Það gengur ótrúlega vel, ég er að taka við fyrirtæki í flottu standi og sé enga ástæðu til þess að breyta einhverju sem hefur gengið virkilega vel síðustu 14-15 árin,“ segir Óli, aðspurður hvort einhverjar breytingar stæðu til í kjölfar eigendaskiptanna.

„Baldur er ekki búinn að ákveða hvað hann ætlar að gera, hann sagði mér um daginn að hann væri að taka jólafríið síðan 2014 þannig að hann á inni töluvert mikið frí og ætlar bara að njóta svona fyrst um sinn. Það er spennandi að komast inn í samfélagið hérna á Selfossi og fá að kynnast fólki. Þó að ég sé búinn að búa hérna í 6 ár þá hef ég alltaf unnið í bænum þannig að maður er eiginlega fyrst núna að komast inn í þetta. Ég er reyndar í slökkviliðinu líka, á útkallslista hjá Brunavörnum Árnessýslu, en núna kynnist maður fullt af fólki og öllum fyrirtækjunum þannig að þetta er bara spennandi,“ segir Óli Ágústsson, nýr eigandi BR flutninga.

Nýjar fréttir