14.5 C
Selfoss

Níu teymi valin inn í viðskiptahraðalinn Sóknarfæri í nýsköpun

Vinsælast

Þann 23. janúar nk. hefjast Sóknarfæri í nýsköpun sem er átta vikna sunnlenskur viðskiptahraðall þar sem áhersla er lögð á verkefni sem tengjast orku, mat og líftækni, ferðaþjónustu og skapandi greinum. Auglýst var eftir þátttakendum í desember og voru á endanum valin níu teymi til þátttöku.

Þau eru eftirtalin:

Viðskiptahraðallinn er sérhannaður með þarfir teymanna sem taka þátt í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Hraðlinum er stýrt af Svövu Björk Ólafsdóttur stofnanda RATA en hún hefur jafnframt haldið utan um viðskiptahraðla á vegum Norðanáttar sem hafa hlotið mikið lof. Á meðan á hraðlinum stendur fá teymin fræðslu, vinnustofur og tækifæri til að efla tengslanetið sitt. Hornsteinn hraðalsins eru svo fundir teymanna með reyndum aðilum úr viðskiptalífinu sem mynda net mentora á Suðurlandi, en þar fá teymin tækifæri til að spegla verkefni sín og fá endurgjöf. Hraðallinn fer fram að mestu leyti á netinu en teymin hittast fjórum sinnum meðan á hraðlinum stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Suðurlandi. Hraðlinum líkur þann 16. mars með lokaviðburði þar sem teymin kynna verkefnin sín og framhald þeirra.

Samstarfsvettvangurinn Sunnanátt stendur að viðskiptahraðlinum en Sunnanátt er hreyfiafl sem vill skapa kraftmikið umhverfi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem vinna að nýsköpun á Suðurlandi. Að Sunnanátt standa SASS, Háskólafélag Suðurlands, Nýheimar þekkingarsetur, Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Kötlusetur, Kirkjubæjarstofa, Markaðsstofa Suðurlands, Orkídea og Ölfus Cluster. Auk þess koma að samstarfinu fjölmargir aðilar, svo sem  starfsmenn sveitarfélaga og annað áhugafólk um nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu.

Bakhjarlar Sunnanáttar eru SASS, Lóa nýsköpunarsjóður á landsbyggðinni og Orku-, umhverfis- og loftslagsráðuneytið.

Dagskráin/DFS.is mun fylgjast náið með ferðalagi teymanna ásamt því að fjalla um frumkvöðlaumhverfið á Suðurlandi.

Nýjar fréttir