8.9 C
Selfoss

Nýárskveðja frá Krabbameinsfélagi Árnessýslu

Vinsælast

Öflugu og viðburðarríku ári er nú lokið og ánægjulegt að líta um öxl og rifja upp magnaðar stundir.
Félagið stóð fyrir mörgum skemmtilegum viðburðum á liðnu ári, bæði fræðslum, námskeiðum og stærri viðburðum sem fest hafa sig í sessi í starfemi félagsins.

Ber að nefna Styrkleikana sem haldnir voru í lok apríl í fyrsta sinn á Íslandi. Styrkleikarnir eru alþjóðlegur sólarhrings viðburður sem felst í að halda boðhlaupskefli á hreyfingu í heilan sólarhring. Lið skrá sig til leiks og taka þátt í viðburðinum á fjölbreyttan og táknrænan hátt. Fjöldi sjálfboðaliða, fyrirtækja og stofnana lögðu sitt í verkefnið og úr varð einn magnaðisti viðburður sem margir hafa upplifað. Kraftur, samhyggð og samstaða eru þau lýsingarorð sem ná hvað sterkast utan um upplifunina sem átti sér stað á þessum viðburði. Styrkleikarnir verða haldnir aftur á Selfossi í lok apríl 2023. Er undirbúningur þegar hafinn og tilhlökkunin er mikil. Öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd Styrkleikanna 2022 eru færðar einlægar þakkir fyrir þeirra framlag.

Bleika boðið sem haldið er árlega í október hefur fest sig í sessi sem einn stærsti fjáröflunarviðburður félagsins. Á nýliðnu ári var fjöldi gesta á Bleika boðinu gríðarlega mikill, gleðin var allsráðandi og safnaðist fjármagn sem styrkir félagið til áframhaldandi starfsemi. Þess ber að geta að allir listamenn, framkvæmdaraðilar og Hótel Selfoss gefa vinnu sína og aðföng til viðburðarins og eru þeim færðar innilegar þakkir. Fjáröflunin felst í sölu happdrættismiða þar sem hver vinningur er öðrum glæsilegri og ber að þakka öllum þeim verslunum og fyrirtækjum sem lagt hafa til vinninga í happdrættið. Margir mikilvægir samstarfsaðilar koma að viðburði sem Bleika boðinu og færir félagið þeim öllum miklar þakkir fyrir þeirra framlag og stuðning.

Starfsemi félagsins hefur aðsetur að Eyravegi 31 á Selfossi. Félagið flutti inn í húsnæðið í október 2020 og hefur haldið úti reglulegum opnunartímum þrisvar sinnum í viku nær allt árið um kring. Sjálfboðaliðar standa vaktina og taka hlýlega á móti félagsmönnum með heitu kaffi og umhyggju. Rekstur húsnæðisins er fjármagnaður með styrkjum Bakhjarla sem leggja félaginu til fjármagn ýmist mánaðarlega eða árlega. Bakhjarlarnir eru orðnir margir og er þeirra framlag forsenda þess að mögulegt er að halda félagssaðstöðunni gangandi. Öllum Bakhjörlum eru sendar innilegar þakkir fyrir stuðninginn.

Félagið hefur síðuðustu tvö ár þróað endurhæfingarverkefni með stuðningi og stykjum frá Krabbameinsfélagi Íslands. Verkefnið hefur vaxið mikið og er orðið mikilvægur þáttur í starfseminni. Í endurhæfingunni er lögð áhersla á andlega-félagslega og líkamlega endurhæfingu.

Það er mörgum sem vert er að þakka fyrir stuðning og aðkomu að starfsemi félagsins. Fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir hafa bæði gefið vinnu sína og fjármagn til starfseminnar og er óhætt að fullyrða að Krabbameinsfélag Árnessýslu hefði ekki vaxið líkt og raun ber vitni, nema með þeirra styrkjum. Biðlum við til þeirra sem eiga, að meðtaka innilegar þakkir fyrir.

Nú er nýtt og spennandi starfsár gengið í garð. Stjórn Krabbameinsfélags Árnessýslu er þegar byrjuð að skipuleggja og vinna að viðburðum og öflugri starfsemi með það að markmiði að styðja við og styrkja einstaklinga og aðstandendur sem eru eða hafa tekist á við krabbamein. Við erum full tilhlökkunar fyrir nýja árinu, öllum þeim viðburðum og starfsemi sem framundan er og horfum bjartsýn til framtíðar.

Óskum öllum góðrar heilsu og farsældar á nýju ári
Fyrir hönd stjórnar Krabbameinsfélags Árnessýslu

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður. 

Nýjar fréttir