Gönguskíðabraut hefur opnað á Svarfhólsvelli á Selfossi fjórða árið í röð. Brautin er opin og það kostar ekkert að mæta.
„Veturnir eru misgóðir í þetta, síðasti vetur var til dæmis ekki góður því það var of lítill snjór, en núna er frábært færi, það er allt á kafi í snjó. Við ætlum að reyna að halda þessu úti eins og við getum og gera skíðagöngubrautir þegar veður leyfir. Við gerum þetta í samstarfi við sveitarfélagið en fyrir um 4 árum síðan keyptu þau snjósleða og afhentu okkur til þess að við getum haldið úti þessum gönguskíðabrautum. Þetta er gert í sjálfboðavinnu, aðallega til þess að vekja athygli á vellinum og bjóða fólk velkomið á svæðið. Þetta er kjörið tækifæri fyrir fólk sem er ekki í golfklúbbnum og hefur ekkert kynnst þessu svæði að gera það. Umhverfið er virkilega fallegt og þar er frábært útsýni allan ársins hring. Það eru allir velkomnir, brautin er klár og veðurspáin er okkur hliðholl næstu daga svo það er um að gera að skella sér á gönguskíði á þessari fallegu braut,“ segir Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri og yfirþjálfari hjá Golfklúbbi Selfoss.