6.1 C
Selfoss

Kvenfélögin á Suðurlandi gefa til HSU

Þann 29. nóvember 2022 komu formenn kvenfélaga á Suðurlandi ásamt formanni Sambands Sunnlenskra kvenna (SSK) í heimsókn á HSU. Tilefnið var að þakka þeim sérstaklega fyrir gjafir sem þau gáfu á Covid tímabilinu.

Í upphafi Covid var mikil óvissa um hvernig allt myndi þróast, hvort rými myndu fyllast og hversu vel við gætum annast veika fólkið okkar.  Erfiðar fregnir bárust utan úr heimi um
fjölgun sjúklinga í öndunarvélum og inniliggjandi á gjörgæslum.  Bregðast þurfti hratt við og Samband Sunnlenskra kvenna brást hratt við og gaf súrefnismettunarmæla til stofnunarinnar.  Mælar þessir voru nýttir til að fjölga súrefnismettunarmælum á heilsugæslum og í sjúkrabílum og nýta þá í heimahúsum hjá skjólstæðingum til að  halda fleirum utan sjúkrahúss.

Í desember 2021 gáfu Kvenfélögin einnig tæki sem mælir bilirubin hjá nýburum og metur hvort nýburagula er til staðar. Bilirubin getur hækkað eftir fæðingu og nauðsynlegt að geta mælt það og brugðist við.  Það er hættulegt heilsu barnsins að fara upp í há gildi.  Hægt er að mæla þetta efni í blóði og á húð. Mikill ávinningur er að geta mælt nýbura gegnum húð þar sem það er sársaukalaust, hratt og áreiðanlegt ferli fyrir nýfædda barnið og foreldrar þess.

Að auki brugðust SSK konur hratt við þegar gulumælir ljósmæðravaktarinnar á Selfossi reyndist ónýtur og gáfu deildinni nýjan mæli. Þessi mælir er mikið notaður og gagnast mörgum nýfæddum börnum á suðurlandi.

Kvenfélögin hafa í gegnum árin verið ómetanlegur og sterkur bakhjarl HSU og verður seint fullþakkað fyrir þeirra framlag. Þær hafa t.d. síðan 2010 prjónað og gefið öllum nýfæddum Sunnlenskum börnum ungbarnahúfur. Það verkefni hófst hjá Kvenfélagasambandi Íslands á landsvísu en kvenfélagskonur hér á Suðurlandi ákváðu að halda því áfram með kærleika því þær fundu fyrir innilegu þakklæti þiggjenda og hafa gefið á bilinu 100-150 prjónamuni árlega.

Fleiri myndbönd