11.1 C
Selfoss

Hugsanlega hæsta jólaskreyting á Íslandi

Vinsælast

Aðkoman á Hvolsvöll þessa aðventuna er einstaklega jólaleg og hefur eflaust mikið með það að gera að 45 metra símamastrið, sem flestum sem hafa farið um Hvolsvöll er eflaust kunnugt um, hefur verið fagurlega skreytt með rúmlega kílómeter af blikkandi jólaseríum.

„Bæjarbúar eru alsælir með nýjustu skreytinguna í sveitarfélaginu og það er vinalegt að sjá mastrið okkar hvaðan sem maður er að koma því það sést vel úr öllum áttum,“ segir Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings eystra. Einhverjir bæjarbúar hafa kallað mastrið Eiffel-turn Hvolsvallar og er það ekki fjarri lagi, enda skreytingin hin glæsilegasta.

Þóra Björg Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa tók Árna Árnason á orðinu þegar hann nefndi að snjallt væri að skreyta mastrið í þætti sem hann gerði um Hvolsvöll fyrir sjónvarpsstöðina N4. Þóra fékk leyfi og styrk frá Mílu sem á mastrið og hófst þegar handa. Sveitarfélagið samdi við Björgunarsveitina Dagrenningu um uppsetningu ljósanna og á fjórum dögum tókst þessu hugaða björgunarsveitarfólki að klára verkið.

Nýjar fréttir