0 C
Selfoss

Ómar Ingi er handknattleiksmaður ársins

Vinsælast

Handknattleikssamband Íslands tilkynnti í gær um val á handknattleiksfólki ársins 2022.

Handknattleiksmaður ársins er Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon, 25 ára hægri skytta Madgeburg í Þýskalandi og A landsliðs karla.

Ómar Ingi var Þýskalandsmeistari í handknattleik í vor auk þess sem lið hans vann IHF Super Globe annað árið í röð og lenti í 2. sæti í Evrópudeildinni í handknattleik. Ómar Ingi var næst markahæstur allra leikmanna í deildinni en í lok tímabilsins var hann valinn besti leikmaður þýsku deildarinnar. Með landsliðinu náði Ómar 6. sæti á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu þar sem hann var valinn í lið mótsins. Ómar Ingi varð jafnframt markakóngur mótsins en hann skoraði 59 mörk á mótinu.

Ómar lék með yngri flokkum Selfoss og spilaði með meistaraflokki bæði á Selfossi og með Val áður hann hélt í atvinnumennsku til Danmerkur. Þar lék hann með bæði Århus håndbold og Ålborg håndbold áður en hann flutti sig um set og hóf að leika með Magdeburg sumarið 2020.

Ómar hefur leikið 66 landsleiki og skorað í þeim 216 mörk.

Undanfarin ár hefur Ómar stimplað sig inn sem leikmaður á heimsmælikvarða, bæði með sínu félagsliði og landsliði.

StórHandknattleikskona ársins 2022 er Vestmannaeyingurinn Sandra Erlingsdóttir, 24 ára leikstjórnandi TuS Metzingen í Þýskalandi og íslenska landsliðsins.

Sandra lék með EH Aalborg í Danmörku í vor þar sem hún var valin besti leikmaður liðsins annað árið í röð en liðið var í harðri baráttu um að komast í dönsku úrvalsdeildina. Á vormánuðum samdi Sandra við þýska liðið TuS Metzingen og hefur leikið stór hlutverk með liðinu í þýsku úrvalsdeildinni. Auk þess hefur Sandra verið í lykilhlutverki með A landsliði kvenna á árinu.

Sandra er frá Vestmannaeyjum en lék bæði með ÍBV og HK í yngri flokkum auk þess sem að vera um tíma með Fucshe Berlin í Þýskalandi þegar fjölskylda hennar bjó ytra. Þegar hún flutti aftur heim hóf hún 18 ára að leika með meistaraflokki ÍBV og lék þar í 2 ár þar til hún skipti til Vals sumarið 2018. Hún varð Íslandsmeistari með Val vorið 2020 og fór í framhaldi í atvinnumennsku.

Sandra hefur leikið 16 leiki með kvennalandsliðinu og skorað í þeim 65 mörk.

Nýjar fréttir