6.1 C
Selfoss

Jólasnittur Ölverk

Vinsælast

Frá opnun Ölverk Pizza og brugghúss í Hveragerði vorið 2017 hafa tilraunir þeirra oft reynt verulega á þolrif þeirra gesta sem kjósa hefðbundari framsetningu og samsetningu hinna ýmsu hráefna á sínum pizzum en þær sem Ölverk kynnir reglulega til leiks þar sem hráefni eins og sviðahausar, kiwi, lakkrís og ferskjur, nú eða tvíreykt hangikjöt hafa komið við sögu og í kjölfarið hlotið umtal út fyrir landsteinana.

Í tilefni aukins fjölbreytileika og frjálslegri hefða í tengslum við hátíðahöld og matargerð og þá staðreynd að hugmyndafluginu séu í æ minna mæli settar skorður, leitaði Dagskráin til hins geðþekka og framúrstefnulega pítsugerðarmeistara og eiganda Ölverk, Elvars Þrastarsonar, í leit að ferskum og nýjum hugmyndum að hátíðarréttum.

Til þess að ná fram hinni fullkomnu jólastemningu mælir Elvar með því að hlusta á eftirfarandi jólalög á meðan matseld stendur:  Jólakveðja með Prins Póló, Nú mega jólin koma fyrir mér með Sigurði Guðmundssyni ogMér hlakkar svo til með Dáðadrengjum.

Jólahjól-snitta Ölverk

Hérna er ferðinni jólahjól-pizza Ölverk, sem hefur verið á desembermatseðlinum okkar frá desember 2017, en fyrir þetta jólablað þá setti ég þessa margrómuðu jólapizzu fram sem jólasnittu.

Það sem þarf er fínt snittubrauð, klettasalat, tvíreykt hangikjöt ( þunnt skorið), rauðkál, rósapipar dressing og rifinn Feykir.

Rósapipar dressing

200gr majónes
50gr sýrður rjómi
4gr rósapipar
12gr heitt vatn
4gr piparrót

Myljið rósapiparinn fínt í morteli. Næst er heitu vatni hellt saman við rósapiparinn. Í annari skál skal hræra saman majónesi, sýrðum rjóma, rifinni piparrót og smá pipar en næst er svo vatns-rósapiparblöndunni hellt ofan í skálina og hrærð saman við majónes blönduna. Gott er að leyfa sósunni að bíða í 1 klst áður en hún er notuð.

Samsetning Jólahjól-snittu Ölverk:

Skerið snittubrauðið í þunnar sneiðar. Til þess að fá smálit og áferð á snittusneiðarna skal setja þær stuttleg undir grillið í bakaraofninum til að fá smá lit og áferð á þær

Leggið klettasalatið ofan snittuna og næst rauðkálið. Svo tvíreyktu hangikjöti sneiðarnar eru lagðar yfir rauðkálið og rósapipar sósunni skvetta yfir allt og loks Feykir rifinn yfir snittuna.

Gilla-jólasnitta Ölverk

Þessi ljúffenga Gilla-jólasnitta kom til mín í draumi en ég trúi því að það sé hægt að að gera allan mat betri annað hvort með gráðosti eða chilli pipar en svo vill til að Gilla-jólasnittan hefur bæði.

Það sem þarf fyrir þessa snittu er fínt snittubrauð, gráðostur, Gilli Eldtungu sósa, dökkt 70% súkkulaði og piparkökur

Gráðosta blanda

240gr gráðostur
75gr Gilla sósa

Myljið gráðostinn með fingrunum ofan í skál, hellið Gilla sósunni yfir  gráðostinn og leyfið blöndunni aðeins að taka sig. Gráðosturdrekkur sósuna aðeins í sig og mildar chili hitann.

Samsetning Gilla-snittunar

Gráðosta blandan er smurð á snittubrauðið. 70% súkkulaði rifið eða skorið grófið sett ofan á gráðostablönduna. Næst er piparköku broti komið fyrir á snitunni en piparkakan er bæði hugsuð sem skraut og bragðbætir.

Ölverk Hamborgarhryggs snitta

Þessi snitta er eftirlíking af uppáhalds jólaafganga-samlokunni minni en samlokan sem og þessi snitta eru alls ekki síðri en hin hefðbunda hamborgarahryggs máltíð.

Það sem þarf er fínt snittubrauð, hamborgarahryggur, Dijon majónes, Eldtungu marmelaði, Feykir og svartur pipar

Það sem við búum fyrst til er Dijon majónes þar sem við vigtum og blöndum saman í skál

200gr Majónes
30gr Dijon sinnep

Eldtungu marmelaði

250gr Appelsínumarmelaði
30gr Tað Eldtungur ( Chilli sósa )
1gr Svartur pipar ( malaður )

Vigtað í skál og blandað saman

Samsetning Ölverk hamborgarhryggs snittunnar

Snittubrauðið skorið í sneiðar og smurt með Dijon majónesinu. Hæfilega þykkum sneiðum af hamborgarhryggnum er svo svo komið fyrir  ofan á dijon majónesið en síðast setjum við svo dass af Eldtungumarmelaðinu og rifnum Feyki ofan á hamborgarhryggssneiðina og er þá þessi ljúffenga snitta tilbúin.

Nýjar fréttir