Daníel E. Arnarsson
Jólin mega koma þegar…snjórinn fellur, glöggið komið í glasið og hægt að hita sér við eldinn
Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brún lagterta
Uppáhalds jólaminningin mín er? Þær eru svo margar! Að elda með mömmu og pabba er alltaf skemmtilegast.
Hvað er á jólaborðinu? Léttreyktur lambahryggur er bestur og svo eru karamellukartöflur þær allra mikilvægasta, ekki brúnaðar kartöflur heldur karamellu.
Jólamynd eða jólabók? Ég horfi alltaf á Millenium þríleikinn um jólin, þær eru alls ekki jólalegar en eru orðnar það. Ég les þó aldrei sömu bókina um jólin heldur það sem kemur upp úr pökkunum hverju sinni.
Ingibjörg Rafnsdóttir
Jólin mega koma þegar… Jólatréið er komið upp, við höfum síðustu ár sett það upp kvöldið eftir að Stekkjastaur kemur. Þá styttist heldur betur í jólin og eftirvæntingin er orðin mikil á heimilinu.
Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta ? Brún lagterta allan daginn, ekkert betra en gott kakó og brúnterta eftir góða útiveru.
Uppáhalds jólaminningin mín er ? Mér finnst jólin dásamleg þau eru minn uppáhalds árstími! Eftir að strákarnir mínir fæddust finnst mér mjög gaman að skapa okkar eigin hefðir og allt verður svo ótrúlega spennandi og skemmtilegt þegar maður fylgist með þeim.
En ég á ein eftirminnileg jól frá því að ég var lítill. Pabbi minn hafði mjög oft ratleik á síðasta pakkanum þegar við systur vorum yngri. Þetta árið hafði hann keypt fyrstu tölvuna inn á heimilið, þetta var risastór borðtölva til allra í fjölskyldunni, en þetta var stuttu eftir aldamótin. Hann hafði gert ratleik í gegnum alla íbúðina sem endaði svo í kjallaranum þar sem að pakkinn beið okkar. Þetta árið höfðu amma mín og afi sem bjuggu á Austurlandi verið hjá okkur, þau höfðu verið á Kanarí og voru svo hjá okkur yfir aðfangsdagskvöld. Afi var svo þreyttur eftir ferðalagið að hann sofnaði í sófanum eftir matinn og svaf allt kvöldið og missti af öllum pökkunum, ég velti því ennþá fyrir mér hvernig hann svaf í gegnum þennan gleði trylling sem við systur tókum þegar við komumst að því að það væri komin tölva inn á heimilið.
Hvað er á jólaborðinu ? Það er klassískur hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi og dásamlegt vegan wellington sem systir mín gerir.
Jólamynd eða jólabók ? Jólamynd allan daginn! Ég hef horft á óþarflega mikið af lélegum Hallmark jólamyndum sem er orðið partur af jólunum núna. Fátt betra í desember en að kveikja á jólamynd og fá sér smá súkkulaði eða einn jólabjór með þegar heimilið er komið í ró. Maðurinn minn er samt orðinn þreyttur á þeirri hefð sem ég hef haldið frá því að ég var unglingur, en það er að horfa á Love actually á Þorláksmessu kvöld. Hann sagði stopp í fyrra en þá hafði það verið ellefta skiptið sem hann hefði horft á hana !
Uppáhalds jólasveinninn minn er… Skyrgámur! Af því ég elska skyr eins og hann og stundum þá sjást leifar eftir hann eftir að hann kemur til byggða.
Jón Bjarnason
Jólin mega koma þegar… kirkjuklukkurnar hringja inn..
Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brún lagterta
Uppáhalds jólaminningin mín er… frá því fyrir tíma „andlitsbókarinnar“ þegar fjölskyldan settist niður á aðfangadagskvöld og opnaði og las jólakortin.
Hvað er á jólaborðinu? Rækjupönnukökur að hætti ömmu í forrétt, hamborgarhryggur og meðlæti í aðalrétt og heimatilbúin ís og marengsterta í eftirrétt.
Jólamynd eða Jólabók? Home alone
Uppáhalds jólasveinninn minn er… Kertasníkir, hann gaf alltaf það besta í skóinn hjá mér.
Guðmundur Karl Sigurdórsson
Jólin mega koma þegar… klukkan slær sex á aðfangadag og útvarpsþulurinn segir „Útvarp Reykjavík, gleðileg jól“. Reyndar hellist andinn yfirleitt ekki yfir mig fyrr en að kvöldi aðfangadags, þegar búið er að opna pakkana og allir eru orðnir slakir. Jafnvel yfir einni skál af ís.
Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Ninna amma bakaði bestu jólakökurnar og ég hef ekki fundið neinn jólakökubakara sem kemst með tærnar þar sem hún hafði hælana. Þannig að í seinni tíð má segja að ég hafi snúið baki við jólakökunni og borða nú eingöngu brúna lagtertu. Nánast í öll mál.
Uppáhalds jólaminningin mín er? Einhverra hluta vegna á ég óljósa minningu um að Skyrgámur hafi heimsótt mig á aðfangadag. Það virðist hins vegar ekki vera í fersku minni annarra í fjölskyldunni, þannig að mögulega er ég að segja ósatt. Ég á líka góðar minningar um skemmtileg jólaböll á Flúðum og einhvern tímann þurftum við mamma að fá far með nágranna okkar, Guðjóni frá Hrepphólum, á vörubílnum hans niður á Selfoss. Ég man eftir að hafa setið úti í glugga á bílnum þegar ekið var yfir örmjóa brúnna á Stóru-Laxá í vondu verðri og horft niður í hyldýpið. Þegar ég hugsa um þetta núna þá er þetta sennilega hræðilegasta jólaminningin.
Hvað er á jólaborðinu? Það hefur nú verið ýmislegt í gegnum tíðina en síðustu árin höfum við verið með hamborgarhrygg og hnetusteik. Já, og auðvitað ananas. Meðlætið er reyndar fjölbreytt en ég legg líka mikið upp úr því að vera með sérstaka jólablöndu sem er samsett af malti, appelsíni og kókakóla. Uppskriftin hefur varðveist í fjölskyldu minni um aldir, en ég er sá eini sem kann hana í dag.
Jólamynd eða jólabók? Hér áður fyrr þá fékk ég alltaf bók í jólagjöf. Það gerist því miður sárasjaldan núna. En jólamyndirnar eru fastur liður á aðventunni og um jólin. Það er bara þetta dæmigerða; Home Alone, Die Hard, Love Actually, Elf og Christmas Vacation. Ef það væru brandajól þá myndi ég líka hafa tíma til að horfa á Lord of the Rings og Harry Potter.
Uppáhalds jólasveinninn minn er… Þetta er áleitin spurning og ekki auðvelt fyrir mig að svara henni. Alla tíð hefur Skyrgámur verið minn maður en ég starfaði náið með Þvörusleiki um nokkurra ára skeið, þannig að mér þykir óskaplega vænt um hann líka. Þeir eru báðir algjörir toppmenn.
Ívar Sæland
Jólin mega koma þegar… skatan er komin í magann minn.
Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brún lagterta að hætti mömmu
Uppáhalds jólaminningin mín er? Fyrstu jólin með dóttur okkar henni Herdísi Aþenu
Hvað er á jólaborðinu? Alinn upp við hamborgarahrygg en núna er margt prófað
Jólamynd eða jólabók? Jólamynd (sérstaklega Klaus á Netflix)
Uppáhalds jólasveinninn minn er? Ketkrókur
Erla Björg Arnardóttir
Jólin mega koma þegar… Ég hef gengið upp á eitthvað fjall og heilsað sólinni úr öllum áttum á vetrarsólstöðum..sama hvernig veðrið er
Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Lagterta með kaldri mjólk
Uppáhalds jólaminningin mín er… Þegar jólakortin innan sveitarinnar voru í kassa útí búð og fólk hittist við kassan og spjallaði á meðan að fólk leitaði að sínum kortum. Stundum fundust kort þeirra sem spjallað var við og þá var þeim deilt út. Hjá Sollu á Grund voru stundum mandarínur eða piparkökur við kassana og þá var gríðarlega gaman og spjallið teygðist enn meira.
Hvað er á jólaborðinu? Það fer eftir því hvort að það er bara fjölskyldan eða vinir sem maður hefur eignast frá öðrum löndum. Þá koma þau með þann mat sem tíðkast um jól í þeirra heimalandi svo er hamborgarhryggurinn okkar og kóteletturnar sem fylgja foreldrum mínum.
Jólamynd eða Jólabók? Bæði betra. Engin jól án bókar og konfektkassa og svo jólamynd á jóladagsmorgun.
Uppáhalds jólasveinninn minn er… Bara sá sem ég hitti síðast upp á Bláfellshálsi í keyrslunni upp á jökul.