-0.9 C
Selfoss

Brennið þið vitar Elfars Guðna Þórðarsonar 20 ára

Vinsælast

Sögu- og menningarstund var laugardaginn 12. nóvember 2022 í Svartakletti Elfars Guðna Þórðarsonar, listmálara, í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri.

Tilefni þessa var að þann 12. október 2022 voru liðin 20 ár frá því listaverkið glæsilega  Brennið þið vitar eftir Elfar Guðna var afhjúpað á stórkostlegri, rúmlega 600 manna hátíðarsamkomu á afmælisdegi Páls Ísólfssonar þann 12. október árið 2002  í Lista- og menningarsal Menningarverstöðvarinnar.

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi, undir verkstjórn Björns Inga Bjarnasonar, forseta félagsins, hefur tekið saman 150 síðna myndrit um tilurð Menningarverstöðvarinnar og listaverksins Brennið þið vitar 

Það var síðan heiðursforseti Hrútavinafélagsins Örvars, Guðni Ágústsson sem afhenti Elfari Guðna Þorðarsyni myndritið og verður ritið til sýnis og uppvakningar góðra minninga í Svartakletti Elfars Guðna á opnunurtímum þar.

Menningarverstöð verður til

Hraðfrystihús Stokkseyrar var endurbyggt og stækkað verulega eftir mikinn bruna þann 30. maí 1979. Reisugildi hins nýja endurbyggða húss var þann 12. október 1979 á 50 ára afmæli byggingameistara hússins Sigurjóns Jónssonar sem lést þann 25. september 2017.
Mikil og kröftug vinnsla og útgerð var á vegum Hraðfrystihúss Stokkseyrar í nýja húsnæðinu allt fram undir síðustu aldamót. Vegna breytinga í sjávarútvegi; kvótakerfis og sameininga fyrirtækja var svo komið að rétt fyrir síðustu aldamót var engin vinnsla í húsinu í nokkur ár.
Það var svo þann 6. júní 1999 að Fiskvinnslan Hólmaröst hóf strafsemi í hinu fyrrum Hraðfrystihúsi Stokkseyrar og var með öfluga og tæknivædda saltfiskvinslu allt  til ársins 2006. Eigendur Hólmarastar voru Björn Ingi Bjarnason og Einar Sveinn Einarsson sem höfðu verið með fiskvinnslu um árabil í Reykjavík.

Fljótlega fóru þeir að hugleiða frekari nýtingu á því mikla húsnæði sem þarna var til staðar á Stokkseyri og strax var horft til; sögu- mannlífs- og menningarfleiðarinnar á svæðinu. Byrjað var að framkvæma breytingar á húsnæðinu til þess að gera það aðgengilegt fyrir þessa nýju notkun sem Sigurður Jónsson, fréttaritari Morgunblaðsins, sagði í umfjöllun í blaðinu að væri „ný hugsun“ og gæti breytt miklu til hins betra. Í þessu umróti breytinga sem margir heimanenn lögðu hönd að með eigendum varð til Menningarverstöðin Hólmaröst í hinu fyrrum Hraðfrystihúsi Stokkseyrar.

Nafnið Menningarverstöð varð til á ritstjórn blaðsins Gluggans á Selfossi sem gefið var út á þessum árum. Nafnið eiga þær; Þóra Þórarinsdóttir, Soffía Sigurðardóttir og Þórdís Jónsdóttir sem allar unnu á ritstjórn Gluggans.

Brennið þið vitar

Fyrstur til landnáms í hinu nýja athafnaumhverfi í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri var listmálarinn Elfar Guðni Þórðarson sem um árabil hafði málað á vinnustofu sinni í Götuhúsum og haldið sýningar árvisst um hvítasunnuna í Félagsheimilinu Gimli á Stokkseyri. Elfar Guðni kom sér vel fyrir í Menningarerstöðinni með rúmgóðri vinnustofu og glæsilegum sýningarsasl. Þarna hefur Elfar Guðni starfað og dafnað enn frekar í listsköpun sinni allt frá því 2001 til þessa dags. Hann gaf sínu svæði nafnið Svartiklettur og er það sótt í fjöruna rétt vestan við Stokkseyrarbryggju.

Hluti af innkomu Elfars Guðna í Menningarverstöðina árið 2001 var að mála 30 fermetra Íslandsmynd fyrir Björn Inga og Einar Svein þar sem allir helstu vitar landsins voru settir á ströndina með tölvustýrðum ljósambúnaði. Síðan var lag Páls Ísólfssonar (f. 12. október 1893 – d. 23. nóvember 1974)  við ljóð Davíðs Stefánssonar (f. 21. janúar 1895 – d. 1. mars 1964) Brennið þið vitar í flutningi karlakórs leikið undir meðan ljós á öllum vitum landsins komu inn á rúmum fjórum mínútu með nákvæmri tölvustýringu.

Margir komu að gerð þessa listaverks Elfars Guðna með einum eða öðrum hætti. Það var síðan afhjúpað og vígt á afmælisdegi Páls Ísólfssonar þann 12. október 2002 og voru rúmlega 600 manns í Menningarsalnum í Menningarverstöðinni Hólmaröst er Karlakórin Þrestir í Hafnarfirði fluttu lagið Brennið þið vitar og ljós komu á alla vitana á listaverkinu í fyrsta sinn. Þrestir eru elsti karlakór landsins en hann stofnaði Friðrik Bjarnason tónskáld frá Stokkseyri sem lengi bjó í Hafnarfirði og var þar heiðursborgari.
Gríðarleg gleði viðstaddra var þarna þann 12. október 2002 og sögðu margir að þarna hefðu hughrif hrifningarinnar náð hástigi í gæsahúð allra hátíðargesta. Í ljós kom þarna að hljómburður í salnum var sérlega góður og kom tónlistarfólki verulega á óvart.

Þetta er rifjað upp nú því rétt 20 ár eru frá þessari efirminnilegu samkomu.

Þá er öllum ljós hið mikilvæga og margþætta sögu- mannlífs- og menningarstarf sem verið hefur í Menningarverstðinni Hólmaröst á Stokkseyri frá þessum tíma til dagsins í dag og verður ekki rakið hér að þessu sinni. Geta má þess að samkvæmt teljara sem er í Menningarverstöðinni komu þangað 37.000 manns á fyrsta heila opna árinu 2003.

Meðfylgjandi eru myndir sem tengjast þessu upphafi þann 12. október 2002 og afmælissamkomunni nú þann 12. nóvember 2022.

Björn Ingi Bjarnason,
forseti Hrútavinafélagsins
og Guðni Ágústsson,
heiðursforseti Hrútavinafélagsins.

Random Image

Nýjar fréttir