Þann 25. nóvember hófst alþjóðlegt átak gegn ofbeldi sem stóð til 10. desember. Þema átaksins var liturinn appelsínugulur og víða í sveitarfélaginu mátti sjá appelsínugulum fánum flaggað. Átakið snerist um að segja nei við öllu ofbeldi.
Ofbeldi getum verið af ýmsum toga og allir geta orðið fyrir ofbeldi. Inni á heimasíðu 112 er að finna ýmsar upplýsingar um ofbeldi og birtingarmyndir þess. Þar er einnig hægt að finna allkyns úrræði fyrir þau sem verða fyrir ofbeldi.
Flest allir þeir staðir sem bjóða þolendum ofbeldis upp á ráðgjöf og stuðning bjóða upp á netspjall og símatíma. Þessi úrræði eru til staðar ef þig vantar ráðgjöf, hvort sem það er fyrir þig eða einhvern sem þú þekkir. Engu máli skiptir hversu langt síðan ofbeldið átti sér stað, það er alltaf hægt að fá hjálp.
Forvarnarteymi Árborgar hefur verið starfrækt í 12 ár. Í dag kemur teymið saman mánaðarlega og samanstendur af fulltrúum frá ýmsum áttum samfélagsins. Í teyminu eru fulltrúar frá frístundaþjónustu, grunn- og leikskólum, fjölbrautaskólanum, HSu, lögreglunni, UMFs, velferðarþjónustu, skólaþjónustu og fulltrúar foreldra. Forvarnarteymið ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd forvarnarstarfs fyrir sveitarfélagið Árborg í samræmi við markaða stefnu í forvarnarmálum. Að auki við markaða stefnu bregst forvarnarteymið við þegar samfélagið kallar á auknar forvarnir er varðar ákveðið málefni.
Eitt af verkefnum forvarnarteymis var að hrinda af stað átakinu “Árborg gegn ofbeldi”. Sem voru viðbrögð teymisins við aukningu á ofbeldishegðun ungmenna í sveitarfélaginu. Þar er áhersla lögð á hnitmiðaða fræðslu frá fag- og viðbragðsaðilum til forsjáraðila og einnig myndband þar sem ungmenni eru hvött til þess að eiga í heilbrigðum samskiptum og efla styrkleika sína.
Við hvetjum ykkur til þess að skoða þessi myndbönd, taka samtalið með börnunum ykkar og opna umræðuna um þetta þarfa málefni.
Fyrir hönd forvarnarteymis Árborgar
Dagbjört Harðardóttir
Forvarnarfulltrúi
og Sigga Birta
Teymisstjóri barnateymis velferðarþjónustu