6.1 C
Selfoss

Samvera og gæðastundir á aðventunni

Vinsælast

Það er dýrmætt að vera minntur á mikilvægi samverunnar og að njóta hennar með þeim sem okkur þykir vænt um

Nú þegar desember er genginn í garð er gott að staldra aðeins við, minna sig á hvað aðventan og jólin snúast um og sjá til þess að það sem mestu máli skiptir komist fyrir.  

Meiri hraði, auknar kröfur og spenna einkenna nútímasamfélagið og lífsgæðakapphlaupið hefur líklega aldrei verið meira. Sífellt meiri hraði og sókn í efnisleg gæði. En það sem sést ekki í þessari baráttu og er raunverulega mikilvægast í þessu öllu verður undir. Börnin okkar, fjölskyldan og samverustundirnar með okkar nánustu. 

Það er einmitt tíminn sjálfur sem skiptir máli – gæðastundirnar með okkar nánustu

Það þarf ekki að vera skipulögð skemmtidagskrá. Það eru einmitt litlu hlutirnir sem skipta máli, borða saman morgunmat, trítla saman í þvottahúsið og hjálpast að, baka, lita saman og fara út að leika. Það eru einmitt þessar minningar sem sitja eftir, ekki keypt ást og hamingja. 

Lengi býr að fyrstu gerð 

Ákjósanlegt er fyrir foreldra að hvetja til samverustunda fjölskyldunnar þegar börn eru ung og styðja við þau inn í unglingsárin eins og kostur er. Niðurstöður rannsókna sýna að börn og unglingar sem verja tíma með foreldrum sínum eru síður líklegir til að sýna ýmis konar áhættuhegðun. Við hvetjum foreldra og forráðamenn til að verja tíma með börnum sínum því samvera er besta forvörnin. 

Það sem raunverulega skiptir máli 

Fjölskyldur geta fengist við ýmislegt sem þarf ekki að kosta mikið og jafnvel ekki neitt. Aðalmálið er að fjölga samverustundunum, sýna börnunum áhuga og hafa gaman saman. Að njóta saman inni eða úti í fallegu náttúrunni, upplifa og skapa dýrmætar minningar saman.  

Eitt af geðorðunum er einmitt ,,hlúðu að því sem þér þykir vænt um“. Þar er átt við allt sem lifir, þarfnast umhyggju og ástar. Að geta veitt einhverjum þessa mikilvægu næringu fyrir sálina gefur okkur tilgang í lífinu auk þess sem það bætir líf annarra. 

Með ósk um notalega og hamingjuríka aðventu. 

Fyrir hönd
forvarnarteymis Árborgar,

Díana Gestsdóttir,
lýðheilsufulltrúi í
Sveitarfélaginu Árborg 

Nýjar fréttir