6.1 C
Selfoss

Pláss fyrir íþróttir í Árborg

Vinsælast

Miklar breytingar hafa orðið á Selfossi síðastliðinn áratug eða svo. Íbúafjöldi hefur aukist hröðum skrefum, svo hratt að innviðir hafa vart við. Við val á búsetusvæði líta fjölskyldur meðal annars til þess fjölbreytta og öfluga íþróttastarfs sem fer fram á svæðinu fyrir börn og ungmenni. Mikill hugur hefur verið í bæjarstjórn að styðja við íþróttastarf í sveitarfélaginu enda mikilvæg forvörn sem eflir æskuna í að finna sér farsælan farveg í frístundum og stundum líka atvinnu.

Það íþróttafélag sem hefur lengst starfað á svæðinu heitir hestamannafélagið Sleipnir og var það stofnað 12. Júní 1929. Í dag er hestaíþróttin mikið fjölskyldusport sem spannar iðkendur frá smábörnum til eldri borgara, tómstundaþjálfunar til heimsleika.

Í upphafi var athafnasvæði félagsins við miðbæ Selfoss en hefur verið fært tvisvar sinnum frá stofnun, fjær íbúabyggð. Hestaíþróttasvæðið er í dag staðsett við bæjarmörkin austanverð, við Gaulverjabæjarveg. Á þessum tíma hefur afar margt breyst, m.a. það að við viljum hafa íþróttasvæði í seilingarfjarlægð og skipuleggja þannig að börn og unglingar geti helst gengið eða hjólað til að stunda sína íþrótt. Við höldum færri hross og leggjum meiri tíma í hvern hest. Þjálfunartímabilið hefur lengst og nær nú yfir allt árið.

Hestaíþróttin er flókin að því leiti að knapi og hestur er par sem þarf hvort tveggja að vera í þjálfun og vinna sem ein heild í þjálfun keppni. Þjálfunarsvæði fyrir hestaíþróttir eru reiðhallir, keppnisvallasvæði og síðast en ekki síst reiðvegir, sem lagðir hafa verið af reiðveganefnd félagsins í gegnum áratugina. Fjármögnun reiðvega byggir á framlagi frá Vegagerðinni, Landssambandi hestamannafélaga og sveitarfélögum. Hjá Sleipni er öflug reiðveganefnd sem hefur nýtt reiðvegafé afar vel með sjálfboðastarfi og notkun á eigin vélakosti í gegnum tíðina.

Allir sem stunda hestamennsku á Íslandi vita að reiðvegir eru lífæð íþróttarinnar og afar mikilvægt að hafa leiðir frá hesthúsahverfum sem fjölbreyttastar. Hesthúsahverfi eru séríslenskt fyrirbæri sem styðja við öflugt félagsstarf þar sem rúmast bæði atvinnuknapar, barna og unglingastarf og tómstundareiðmennska fjölskyldna og einstaklinga. Íþróttin skapar sveitarfélaginu tekjur með fasteignagjöldum af hesthúsum auk viðskipta sem tengjast sportinu og þeim fyrirtækjum sem þjóna hestafólki, dýralæknar, járningafólk, söðlasmiðir, byggingavöruverslanir og svo má lengi telja. Útreiknað verðmæti hestaíþróttarinnar á landsvísu er talið í milljörðum fyrir þjóðarbúið

Skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu hafa á síðasta áratug eða svo, horfið frá þeirri stefnu að færa svæði hestaíþrótta fjær íbúabyggð. Nú er horft heildstætt yfir skipulagssvæði og fléttað saman byggð, íþróttasvæðum hestamanna og gjarnan notað saman við friðuð svæði og önnur íbúasvæði t.d. Heiðmörk og golfvöllinn á Vífilsstöðum.

Í dag eru bestu reiðleiðir og þjálfunarsvæði í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu enda nokkur hestamannafélög sem hafa m.a. unnið að því að tengja leiðir milli sveitarfélaga íþróttinni og þeim sem hana stunda, til hagsbóta.

Bæjarstjórnir síðustu ára í Árborg hafa gefið út sinn vilja til að íþróttasvæði hestamanna á Selfossi fái að dafna þar sem það er staðsett og vinnur með félaginu að því að tryggja betur öryggi knapa og hesta á þeim reiðvegum sem liggja að hesthúsahverfinu, meðfram Gaulverjabæjarvegi og yfir veginn inn í Flóahrepp. Horfið hefur verið frá þeirri stefnu að færa athafnasvæði undir hestaíþróttir stöðugt fjær byggð og frekar horft til þess að skipuleggja þannig, að hestaíþróttir geti notið sín með íbúabyggð eins og aðrar íþróttir.

Hestamannafélagið Sleipnir horfir til þess að vaxa yfir í Flóahrepp, yfir Gaulverjabæjarveg og hefur sveitarstjórn Flóahrepps tekið vel í hugmyndir um að breyta aðalskipulagi til að styðja við þessa þróun. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerð og Flóahreppi hafa verið tryggð undirgögn undir þjóðveg nr. 1 þegar ný brú verður risin yfir Ölfusá og framkvæmdir við veginn í austurátt koma til framkvæmdar. Með þessum undirgöngum og tengingu við reiðleiðir norðan þjóðvegarins opnast möguleikar fyrir öruggar reiðleiðir. Í dag búa knapar við umferðarhættu sem fylgir ört vaxandi umferð um Gaulverjabæjarveg en samþykkt hefur verið að lækka umferðarhraða niður í 50 km/klst frá hringtorgi við Bónus að Suðurhólavegi. Fyrir liggur að setja þrengingu á Gaulverjabæjarveginn þar sem knapar ríða yfir til að tryggja enn betur öryggi þeirra. Hér er um lágmarks aðgerðir að ræða sem miða að bættu öryggi og framundan að vinna í frekari bætingu á öryggi þeirra sem um reiðvegina fara.

Á síðustu 15 árum hefur reiðleiðum verið lokað í kjölfar skipulagsvinnu þar sem ekki var gert ráð fyrir þeim reiðleiðum sem voru fyrir eða fyrirhugaðar. Það er okkar von að sú farsæla þróun sem orðið hefur í skipulagsmálum í kringum hesthúsahverfin á höfuðborgarsvæðinu og reiðvegina þar, skili sér hingað austur. Í stað þess að fella út þessi íþróttamannvirki verði skipulagt með þau í huga og þannig byggt undir betra mannlíf á svæðinu með tillitssemi vegfarenda í forgrunni.

Sigríður Magnea Björgvinsdóttir
Formaður Hestamannafélagins Sleipnis

Nýjar fréttir