Tónleikar, handverksmarkaðir, Jólaglugginn og koma Jólasveinanna í Miðbæ Selfoss er einungis brot af þeim viðburðum sem í boði verða yfir jólahátíðina í Árborg í ár.
Í ár er dagskráin þétt í öllu sveitarfélaginu. Fjöldi tónleika verða í Miðbæ Selfoss og annað árið í röð býður Jólatorgið á Eyrarbakka upp á handverksmarkað, tónlist og ýmislegt fleira. Hátíðardagskráin hófst í lok nóvember, þegar jólaljós voru tendruð í miðbæ Selfoss. Síðustu helgi opnaði Jólatorgið á Eyrarbakka og ljósin voru kveikt á jólatrjánum á Stokkseyri og Eyrarbakka samkvæmt venju á fyrsta sunnudegi aðventunnar.
Í gær, 1. desember, opnuðum við fyrsta Jólagluggann hjá bókasafni Árborgar á Selfossi og verður nýr gluggi opnaður á hverjum degi víðsvegar um sveitarfélagið fram til 24. desember.
Næstu vikurnar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa, svo sem tónleika í miðbæ Selfoss þar sem meðal annars Alexander Olgeirs, Stefanía Svavars, Davíð, Jón Jónsson, Lóurnar, Þórir Geir, Fannar Freyr, Helga Möller og fleiri spila jólalög fyrir gesti og gangandi. Einnig verða tónlistaratriði á Jólatorginu á Eyrarbakka og í Sundhöll Selfoss, sem orðinn er árlegur viðburður og fastur liður í jólaslökun margra.
Við hvetjum alla íbúa til að kynna sér viðburðadagatal sveitarfélagsins sem og samfélagsmiðla, þar sem að nýjir viðburðir geta óvænt birst. Facebook-jóla-síða sveitarfélagsins er „Jól í Árborg“
Sveitarfélagið vill einnig benda á að áramótabrennan á Selfossi verður á brennustæðinu í Gesthúsum og hefst kl. 20:00, laugardaginn 31. desember.Flugeldasýning Björgunarfélags Árborgar hefst kl. 20:15.
Að lokum viljum við minna alla „samfélagsmiðlara“ á að nota #jolarborg þegar þeir deila myndum.