12.3 C
Selfoss

Árborg tekur á móti allt að 100 flóttamönnum á næsta ári

Vinsælast

Í síðustu viku rituðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Fjóla S. Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg og Nichole Leigh Mosty, forstöðukona Fjölmenningarseturs undir samning um samræmda móttöku flóttafólks í Árborg. Samningurinn var undirritaður á Selfossi og kveður á um að sveitarfélagið taki í samstarfi við stjórnvöld á móti allt að 100 flóttamönnum fram til 31. desember 2023.

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þ.m.t. íslenskunámi.

Árborg hefur síðastliðin ár verið móttökusveitarfélag fyrir flóttafólk og meðal annars tekið á móti flóttamönnum sem stjórnvöld hafa boðið til landsins, auk þess að vera þátttakendur í tilraunaverkefni um samræmda móttöku flóttafólks sem hófst árið 2021. Flóttafólk sem sest hefur að í Árborg hefur komið frá Afganistan, Íran, Sýrlandi, Úkraínu og Venesúela.

Samkvæmt samningnum mun Árborg sem fyrr segir taka á móti allt að 100 flóttamönnum fram til 31. desember 2023, þó aldrei færri en 50 manns. Fjölmenningarsetur er tengiliður milli ríkis og Árborgar og tengir flóttafólk við sveitarfélagið, auk þess að veita starfsfólki þess faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf.

„Árborg hefur tekið myndarlega á móti fólki á flótta og býr yfir mikilvægri reynslu af móttöku flóttamanna. Nýju samningarnir sýna ríkan vilja sveitarfélagsins til að hlúa að flóttafólki í neyð. Ég óska Árborg og íbúum sveitarfélagsins hjartanlega til hamingju,“ Segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

“Móttaka flóttafólks í Sveitarfélaginu Árborg hefur gengið afar vel en með undirritun samnings við ríkið vill sveitarfélagið tryggja farsæla móttöku og aðlögun flóttafólks og barna. Það er ánægjuefni að samningurinn sé í höfn en hann mun stuðla að sam¬felldri og jafnri þjónustu en það er mikilvægt að flóttafólk fái jöfn tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu sem fyrst,” segir Fjóla S. Kristinsdóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Nýjar fréttir