„Menntatæknifyrirtæki hafa átt erfitt uppdráttar hér á landi meðal annars vegna hamlandi regluverks. Með stofnun samtakanna viljum við auka þekkingu á menntatækni sem iðngrein og hafa áhrif á umbætur í starfsumhverfinu þannig að samkeppnishæfni menntatæknifyrirtækja eflist. Við viljum auka tengsl við atvinnulífið, rannsóknasamfélagið og skólasamfélagið, allt frá leikskóla upp í háskóla. Kennsla fyrir störf framtíðarinnar byggir á aukinni notkun upplýsingatækni og því er mikilvægt að menntatækni verði nýtt til fulls í skólakerfinu,“ Segir Íris E. Gísladóttir, formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja og stofnandi Evolytes.
Í Samtökum menntatæknifyrirtækja eru fyrirtæki sem öll starfa í menntatækniiðnaði sem er á alþjóðavísu metinn á 24.000 milljarða króna með ríflega 16% stöðugan vöxt milli ára. Menntatækni er rótgróin iðngrein sem á sér áratuga sögu en á Íslandi er greinin tiltölulega ung. Hún hefur þó burði til að geta bætt árangur nemenda hér á landi, auka gildi íslenskunnar og rennt fleiri stoðum undir íslenskt hagkerfi. Með aukinni nýtingu á menntatækni er hægt að umbylta kennsluaðferðum og ná meðal annars betri árangri í læsi og stærðfræði. Samtökin hafa það að markmiði að vinna að hagsmunum og stefnumálum menntatæknifyrirtækja, ásamt því að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í heild sinni íslensku menntakerfi til framdráttar. Heiti samtakanna á ensku er Icelandic Edtech Industry, IEI.