0.6 C
Selfoss

Vetrarstarf Karlakórs Selfoss 2022-2023

Vinsælast

Það er mikil tilhlökkun innan raða Karlakórs Selfoss þessa dagana, þegar fimmtugasta og sjöunda starfsár kórsins er að hefjast. En um 70 söngmenn hafa mætt á fyrstu æfingar vetrarins og menn eru spenntir fyrir að loksins komist söngurinn á flug eftir tvö mögur ár, þar sem fella þurfti niður bæði æfingar og tónleika. Í lok september sl. var haldið sérstakt kynningarkvöld fyrir nýja félaga og var þar vel mætt. Verkefnabók vetrarins er komin í notkun og er þar m.a. að finna fjölmörg lög sem eru nýútsett fyrir kórinn af okkar flinka stjórnanda, Skarphéðni Þór Hjartarsyni. Að sjálfsögðu verða líka hefðbundin karlakóralög á verkefnaskránni.

Jólatónleikar

Að venju eru tvennir jólatónleikar á dagskrá kórsins og er sérstaklega leitast við að hafa þá hátíðlega og um leið skemmtilega. Sungið verður í Skálholtskirkju mánudagskvöldið 12. desember og í Selfosskirkju mánudagskvöldið 19. desember. Aðgangur að jólatónleikunum er eins og fyrr ókeypis og allir velkomnir.

Herrakvöld og fl.

Fastur liður í starfsemi Karlakórs Selfoss undanfarin ár eru Herrakvöld um miðjan janúar, þar gæða kórfélagar og gestir þeirra sér á sviðum og saltkjöti ásamt tilheyrandi meðlæti. Herrakvöldið að þessu sinni ber uppá föstudaginn 13. janúar nk. Þá er fyrirhugað að halda Vísnakvöld/Hag-yrðingakvöld uppúr miðjum febrúar. Á útmánuðum einbeita söngmenn sér svo að undirbúningi vortónleika sem skv. venju hefjast á sumardaginn fyrsta í Selfosskirkju, en kórinn mun syngja á fernum vortónleikum í lok apríl 2023. Vorferð kórsins, sem gæti orðið að utanlandsferð, verður svo farin að afloknum vorverkunum.

Sem fyrr segir er Skarphéðinn Þór Hjartarson stjórnandi Karlakórs Selfoss og píanóleikari er Jón Bjarnason. Æft er á mánudagskvöldum kl. 20.00-22:30 í félagsheimili kórsins að Eyravegi 67.

VBr.

Nýjar fréttir