8.9 C
Selfoss

„Snjalltækin okkar“, námskeið fyrir eldra fólk

Vinsælast

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið undirritaði fyrr á þessu ári samning  við Fræðslunetið um kennslu í tölvulæsi fyrir eldra fólk í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Um er að ræða sérsniðna kennslu sem hjálpar eldra fólki á Suðurlandi að nýta sér þjónustu og rafræn samskipti á netinu með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun, njóta afþreyingar á netinu og auka notkun á þjónustusíðum. Fræðslunetið kallar þessi námskeið „Snjalltækin okkar“ og hófst kennslan sl. vor og lýkur í mars á næsta ári. Það er tölvunarfræðingurinn Bjarni Hlynur Ásbjörnsson sem sér um kennsluna og hefur hann ferðast víða um fjórðunginn vegna þessa, m.a. til Hafnar, Klausturs og Hellu. Næstu námskeið verða á Hvolsvelli og í Þorlákshöfn og eftir áramóti í Hveragerði, á Flúðum og í Reykholti og Vík. Hvert námskeið er í fjögur skipti, tvær klukkustundir í senn.

Markhópurinn er fólk eldra en 60 ára sem hefur þörf á að læra á snjalltæki, spjaldtölvu og/eða snjallsíma. Námskeiðin fela í sér kennslu í notkun rafrænna skilríkja, heimabanka, netverslun og fræðslu vegna samfélagsmiðla og efnisveitna. Þá verður farið yfir notkun á tölvupósti og önnur rafræn samskipti. Bæði er lögð áhersla á hagnýtt gildi sem og skemmtana gildi tækjanna.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í námskeiðunum geta haft samband við Fræðslunetið í síma 560 2030 eða með tölvupósti steinunnosk@fraedslunet.is

Nýjar fréttir