7.3 C
Selfoss

Fréttir af Félagi eldri borgara í Ölfusi

Vinsælast

Vetrarstarfsemi Félags eldri borgara í Ölfusi er nú hafin af fullum krafti.

Í stjórn félagsins eru Halldór Sigurðsson formaður, Rán Gísladóttir varaformaður, Jón H. Sigurmundsson, gjaldkeri, Guðrún S. Sigurðardóttir ritari og meðstjórnendur eru þau Guðfinna Karlsdóttir, Sigurður Bjarnason og Ingvi Þorkelsson.

Starfsemin á þessu starfsári hófst í byrjun júní en þá bauð félagið eldri borgurum,  í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus, í dagsferð um sveitarfélagið okkar. Fararstjóri var formaður félagsins en leiðsögumenn þeir Hannes Sigurðsson frá Hrauni og Einar Sigurðsson Þorlákshöfn. Farið var um mest alla sveitina, flestir vegir þræddir og leiðsögumenn sögðu sögur af mönnum og málefnum og höfðu af nægu skemmtiefni að taka. Ferðin var mjög skemmtileg og höfðu nokkrir orð á því hve langt væri síðan þeir hefðu farið um sveitina sína og hve mikið hefði breyst á síðari árum.  Í lok ferðar var komið við í Hafinu bláa þar sem eigendurnir, Hannes og Tóta á Hrauni buðu upp á veitingar.

Föstudaginn 16. september var aftur blásið til brottfarar á vegum ferðanefndar Félags eldri borgara. Fararstjórar voru þær stöllur í ferðanefndinni, Laufey Ásgeirsdóttir og Rán Gísladóttir en leiðsögumaður  hinn landsþekkti Guðni Ágústson fyrrum þingmaður og ráðherra. Byrjað var á að skoða nýja miðbæinn á Selfossi og leiddi Guðni okkur þar um stræti og sagði sögur húsanna ásamt því að segja frá heiðursmanninum Agli Thorarensen og hans verkum. Síðan lá leiðin í Laugardælakirkju þar sem Bobby Fischer hvílir sína hinstu hvílu og var þar gengið inn í kirkju og hlustað á frásagnir um skáksnillinginn. Áfram var haldið og nú að Flóaáveitu og hún skoðuð og ferðalangar hlustuðu á söguna um tilurð hennar frá heimamanninum Guðna en hans æskuheimili er þarna rétt við. Komið var nú að hádegi og tími til að snæða eitthvað gott og var hópurinn keyrður að Flúðum þar sem menn fengu sveppasúpu og girnilegt brauð með ásamt því að svepparæktin var skoðuð. Næst var farið með ferðalangana í fjósið að Gunnbjarnarholti en það er glæsilegt mannvirki og var ótrúlegt að sjá alla þessa nautgripi á einum stað ásamt ýmsu öðru sem þarna var til sýnis.

Farið var nú að síga á seinnihluta ferðarinnar en næst var komið við í Tré og List þar sem listamaðurinn Ólafur Sigurjónsson tók á móti okkur leiddi okkur í gegnum safnið þar sem getur að líta einstaka listmuni og kirkjuorgel sem Ólafur tók nokkur lög á. Að endingu var farið í kvöldverð í Vatnsholti þar sem félagar fengu hið einstaka íslenska lambalæri að borða ásamt ýmsu öðru góðgæti. Mikið fjör myndaðist og sungið var fram á kvöld.

Það voru þreyttir en ánægðir eldri borgarar sem komu heim seint um síðir. Einstaklega skemmtilega leiðsögn hjá Guðna Ágústsyni ber að þakka en það er með ólíkindum hve vel hann segir frá.

Hin hefðbundna klúbbastarfsemi félagsins er að komast á skrið s.s. félagsvist, bridge, prjónaklúbbur, konukvöld, karlaspjall, kótelettukvöld, boccia,  bingó. 1.des samkoma okkar og síðar þorrablót þegar þar að kemur. Haustfundur félagsins var þann 21.sept. og var þar farið nánar yfir vetrarstarfið.

Nú styttist til jóla og því hefur Félag eldri borgara í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus  ákveðið að halda Aðventutónleika á 9-unni fimmtudaginn 8.des. kl. 17.00 Boðið verður upp á eitthvað góðgæti með tónlistinni en ákveðið var að leita til listamanna í heimabyggð. Tónleikarnir verða nánar auglýstir síðar.

Fjölbreytt og lifandi félagsstarf er öllum nauðsynlegt og vonandi verður þátttaka félaga góð í vetur og nýir félagar eru alltaf velkomnir.

Fyrir hönd Félags eldri borgara í Ölfusi,
Halldór Sigurðsson formaður

Nýjar fréttir