11.7 C
Selfoss

Fýlsungi, saltaður og að hætti nútímans

Vinsælast

Ólafur Högnason er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Að sjálfsögðu sagði ég já við beiðni Ingu vinkonu minnar að verða sunnlenski matgæðingurinn í Dagskránni, það var nú mál til komið. Ég ætla að byrja á því að kynna rétt sem getur varla orðið sunnlenskari því þessi veislumatur er eftir því sem ég best veit ekki snæddur að neinu marki annars staðar en með suðurströndinni að hluta og í Eyjum. Algengt er að þegar hefur náðst í aðal hráefnið að slegið sé upp mann- mörgum veislum.

Saltaður fýlsungi

Þegar nálgast ágústlok fara fýlaveiðimenn sem veiða á landi á stjá og líta eftir fýl á jörðu, það er unginn sem ætlar sér að fljúga úr björgum á haf út sem verið er að skima eftir en sumum þeirra fatast flugið, ná ekki til hafs og geta þá orðið bráð ýmiskonar vargs. Veiðiaðferðin er ekki flókin en 100 % skilvirk og tekur fljótt af, annað hvort næst fuglinn eða hann sleppur óskaddaður enginn særður fugl sleppur frá veiðmanni. Fuglinn er rotaður með svokölluðu fýlapriki og strax snúinn úr hálslið, þegar veiðst hefur sá fjöldi sem óskað er eftir þarf að reyta fiður af kroppunum og svíða svo dúninn af, passa að ofhita ekki fuglana við sviðingu, yfirleitt duga 3 sviðaumferðir með burstun á milli. Þá eru lappir, vængir og haus höggið af, kropparnir slægðir þannig að bringa og bak séu áföst saman, láta þá kólna vel og síðan kafsaltaðir í fötu með fínu og grófu salti blandað til helminga, nugga saltinu vel í

kroppana, mikilsvert er að raða vel í fötuna og setja farg ofan á í lokinn. Eftir nákvæmlega 3 sólarhringa eru fuglarnir teknir úr fötunni og saltið skolað vel af með köldu vatni, sett í pott með köldu vatni þannig að fljóti yfir, suðan látin koma upp og soðið rólega í 1 klst.

Reikna skal með einum unga á mann, borið fram með nýjum kartöflum og gulrófum, mjög gott að drekka ískalda mysu blandaða til helminga með anansdjús.

Fýlsungi að hætti nútímans

Fuglinn hamflettur, bringa og kríkar brúkist, öll fita hreinsuð af passa að fitukirtlar undir vængjum séu vel hreinsaðir. Látið liggja í kryddblöndu (sjávarsalt, svartur pipar, sax- aður hvítlaukur og engifer sett í góða olíu, magn að eigin vali og einnig tímalengd). Annað hvort létt grillað eða steikt á pönnu ath. ekki ofelda. Steikt kartöflusmælki smell- passar með þessu ásamt salati, ( saxaður rauðlaukur, kokteil- tómatar skornir í tvennt, ag- úrka söxuð gróft, sjávarsalt og ólívuolía öllu blandað saman í réttum hlutföllum). Eðal rauð- vín fer mjög vel með þessum rétt.

Mér finnst mál til komið að yngja upp í þessum Dagskrálið og skora því á ungan og mikinn meistara í matargerð, tilvonandi tengdason minn Jón Kristján Gunnlaugsson að verða næsti matgæðingur.

Nýjar fréttir