4.5 C
Selfoss

Fjallaböðin í Þjórsárdal verða að veruleika   

Vinsælast

Í gær var fyrsta skóflustungan tekin að Fjallaböðunum í Þjórsárdal. Það voru þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdarstjóri Fjallabaðanna sem tóku skóflustunguna saman.   

Hér er á ferð metnaðarfull uppbygging í Þjórsárdal sem áætlað er að verði komin í gagnið árið 2025.

Annars vegar er um að ræða Fjallaböðin; baðstað og 40 herbergja hótel, þar sem samspil náttúru og hönnunar á sér engan líkan en stór hluti byggingarinnar verður byggður inní fjallið Rauðukamba. Hins vegar er um að ræða Gestastofu Þjórsárdals sem mun rísa í mynni Þjórsárdals. Þar verður reist 2000 fermetra þjónustubygging sem mun hýsa upplýsingamiðstöð ferðamanna, metnaðarfullt sýningarhald, og veitingaþjónustu ásamt fleiri gistimöguleikum, í smáhýsum og á tjaldstæði. 

Umhverfis- og sjálfbærnisjónarmið eru höfð að leiðarljósi við alla uppbyggingu. Allar byggingar verða BREEAM sjálfbærnivottaðar. Þannig er stefnt að lægra kolefnisspori en venja er til, vistvænum lausnum við byggingu og endurvinnslu á byggingarefni. Stefnt verður að kolefnisjöfnuðum rekstri frá fyrsta degi. Nú þegar hefur félagið plantað 120.000 trjám í Þjórsárdal til að tryggja bindingu kolefnis stax við opnun.

Áætlaður kostnaður við uppbygginguna er á bilinu 6-8 milljarðar króna. Bakhjarlar verkefnisins eru Rauðukambar ehf en helsti eigandi þess eru Íslenskar heilsulindir ehf, dótturfélag Bláa Lónsins hf. 

„Menn höfðu náttúrulega pínulitlar efasemdir um þessa klikkuðu hugmynd, að setja hús inn í fjall og ég skil það mjög vel. En það er í raun og veru algjörlega stórkostlegt að reyna að minnka ásýndina á verkefninu en um leið að skapa eitthvað sérstakt. Stuðningur heimamanna og svo með nýju fólki núna er alveg einstakur og það ber að þakka sérstaklega fyrir það“, segir Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdarstjóri Fjallabaðanna.

Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdastjóri Fjallabaðanna. Mynd: dfs.is/hgl

„Þjórsárdalurinn er algjörlega einstakt svæði, það hefur auðvitað verið afstaða forsætisráðuneytisins að hér þurfi svo sannarlega að vanda til verka. Það sem okkur hefur fundist mikilvægt við þetta verkefni er metnaðurinn í tengslum við umhverfismálin, sjálfbærnina og náttúruverndina. Það skiptir líka miklu máli, vegna þess að þetta er þjóðlenda, að baðstaðurinn sem er fyrirhugaður hér verði opinn almenningi, svæðið sjálft verði aðgengilegt með stígagerð og öðru því þetta svæði er ekki bara mikilvægt fyrir fólkið í sveitinni, heldur er þetta svæði sem skiptir okkur öll máli, alla íslendinga, hvernig tekst til og það er margt í hugmyndunum hér sem við teljum að skipti máli,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Mynd: dfs.is/hgl

„Við erum mjög spennt fyrir metnaðarfullri uppbyggingu í Þjórsárdal en hún rímar mjög vel við áherslur okkar um einstaka hönnun, þjónustugæði, sjálfbærni í rekstri og umhverfisvitund. Með uppbyggingunni er gott aðgengi gesta að svæðinu tryggt á sama tíma og virðing fyrir einstakri náttúru og sögu er höfð að leiðarljósi. Gott samstarf okkar við nærsamfélag, stjórnvöld og viðeigandi stofnanir ber að þakka,“ egir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins hf.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins. Mynd: dfs.is/hgl
Þessi tímamót marka upphafið að mikilli uppbyggingu ferðaþjónustu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  Þjórsárdalurinn er einstök náttúruperla og hefur verið eitt best geymda leyndarmál í ferðaþjónustu á Suðurlandi.  Með friðlýsingu Þjórsárdalsins árið 2020 var lagður grunnurinn að því að varðveita einstök náttúru- og menningarverðmæti Þjórsárdals.  Þjórsárdalurinn með Fjallaböðin, Háafoss, Gjánna, Stöng, Hjálparfoss og fleiri staði ásamt fjölmörgum gönguleiðum og einstakri sögu minja mun verða mikið aðdráttarafl í ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Haraldur Þór Jónsson, sveitastjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Mynd: dfs.is/hgl

Nýjar fréttir