-5 C
Selfoss

Lama peysa

Vinsælast

Uppskrift að peysu úr ELSA sem er burstað alpaka garn frá Permin, lausspunnið og lítillega misþráða. 57% ull, 43% eðal alpakka. Það fæst í nokkrum mjög fallegum litum. Alpaka ullin er af lamadýrum og er gædd mörgum góðum eiginleikum.

Uppskriftin er í small/medium. Víddin 110 sm.

Peysan er prjónuð neðanfrá og upp með einföldu stroffprjóni og úrtakan er tilbrigði við laska. Kraginn getur verið lengri eða styttri eftir smekk og síddina má líka hafa meiri.

Í peysuna fóru 5 dokkur. Hringprjónar 40 og 80 sm no 5 og 7 og 60 sm no 7. Sokkaprjónar eða Crazy Trio no 5 fyrir stroff á ermum. Prjónamerki, fjögur í tveim litum, hér gul og græn, fyrir merkingar við laska. Nokkur prjónamerki í öðrum litum. Fimm geymslunælur, þar af ein lengri.

LV – þegar tvær lykkjur eru eftir að gulu prjónamerki. Taka 1 l fram af prjóninum óprjónaða, prjóna næstu l slétt og bregða óprjónuðu lykkjunni yfir.

LH – Þegar komið er að grænu prjónamerki eru tvær lykkjur prjónaðar saman slétt.

Úrtökur felast þannig í því að prjóna saman tvær lykkjur slétt þannig að lykkjan frá erminni eða bolnum leggst yfir lykkjuna í laskanum.

Uppfitið er kallað Italian tubular cast on og á þessari vefslóð er gott myndband fyrir þá sem vilja nota það. https://www.youtube.com/watch?v=9T0TsGMhG3c

Bolur

Fitjið upp 168 l á prj no 7 og prjónið sl og br þar til bolur mælist 32 sm. Prjónið 3 lykkjur og setjið síðustu 7 lykkjurnar á geymsluprjón (fyrsta og síðasta lykkjan er slétt). Prjónið áfram 84 lykkjur og setjið aftur síðustu 7 lykkjurnar á geymsluprjón. Klárið umferðina sem endar vinstra megin á bakhluta. Það eiga að vera 77 lykkjur á hvorum bolhluta.

Ermar

Fitjið upp 40 l á prj no 5 og prjónið sl og br 9 sm. Skiptið yfir á prj no 7 og prjónið áfram eins. Setjið prjónamerki þar sem umferðin byrjar.

Aukið út á miðri undirermi í tíundu hverri umferð fimm sinnum þannig: Þegar ein lykkja er eftir að prjónamerki er búin til ný lykkja með því að snúa upp á bandið milli lykkjanna. Í fyrsta skipti er sú lykkja prjónuð brugðin og því er sú síðasta prjónuð slétt og fyrsta lykkja næstu umferðar prjónuð brugðin og síðan búin til ný lykkja á sama hátt nema hún verður slétt. Þetta snýst við í næstu útaukningu og þannig koll af kolli til að stroffprjónið haldist rétt.

Þegar ermin er orðin 49 sm eru prjónaðar áfram 4 lykkjur og síðustu 7 lykkjurnar settar á geymsluprjón, fyrsta og síðasta lykkjan eiga að vera brugnar. Prjónið hina ermina eins.

Berustykki

Prjónið ermar við bol og setjið prjónamerki í leiðinni þannig:

Setjið gult prjónamerki þrjár lykkjur til baka frá handvegi. Prjónið 4 lykkjur af ermi og setjið þar grænt prjónamerki. Milli prjónamerkjanna eru þá 7 lykkjur sem marka af laska NO 1 og eru fyrsta og síðasta lykkjan brugnar. Þegar 4 lykkjur er eftir að hinum handveginum er merkt fyrir laska NO 2 með gulu prjónamerki og síðan grænu eftir þriðju lykkjuna á bolnum. Merkið þannig á sama hátt við laska NO 3 eins og NO 1 og NO 4 eins og NO 2 við hina ermina. Klárið umferðina.

Úrtökur bolmegin við laska eru gerðar í hverri umferð 6 sinnum og síðan í annarri hverri umferð 6 sinnum. Engar fleiri úrtökur þar til úrtökum ermamegin lýkur.

Úrtökur ermamegin við laska ert gerðar þannig:

4. umferð x 1

3. hverri umferð x 5

2. hverri umferð x 3

Hverri umferð x 3

Skiptið yfir á styttri prjón þegar hentar

Færið gula prjónamerkið við laska NO 1 um 4 lykkjur inn á laskann að ermahlutanum og græna prjónamerkið við laska NO 2 á sama hátt, 4 lykkjur inn á laskann. Endurtakið við laska NO 3 og 4. Hin prjónamerkin má fjarlægja. Nú eru gerðar úrtökur í hverri umferð við prjónamerkin og áfram farið eftir leiðbeiningum samkvæmt litunum á prjónamerkjunum.

Eftir 12 umferðir eru 19 lykkjur á miðju framstykki settar á lengri geymslunæluna og haldið áfram að prjóna fram og til baka til að hækka bakhlutann. Úrtökur halda áfram á sama hátt og eru þá prjónaðar brugnar frá röngunni. Prjónið að nælunni og snúið við en takið fyrstu lykkjuna fram af prjóninum óprjónaða. Prjónið að nælunni hinum megin og snúið við á sama hátt. Prjónið því næst þar til 2 lykkjur eru að nælunni og snúið við báðum megin og að lokum tvisvar þegar ein lykkja er eftir og snúið við, eins báðum megin. Prjónið áfram upp 4 umferðir. Þegar komið er að því að snúa við eftir að úrtakan kemur inn í laskann er hún gerð með því að prjóna endalykkjurnar tvær saman bæði í lok umferðar og byrjun. Nú eiga að vera eftir 11 lykkjur á milli prjónamerkjanna á bakinu.

Kragi

Takið upp allar lykkjurnar í hálsmálinu á prjón no 5 og í leiðinni lykkjur í götunum sem mynduðust við að prjóna fram og til baka.

Prjónið saman tvær lykkjur þar sem við á til að láta stroffprjónið halda eðlilega áfram og þá ættu að vera á prjóninum uþb 72 lykkjur. Prjónið áfram þar til kraginn er hæfilega langur, hér voru prjónaðir 13 sm. Fellið laust af.

Frágangur

Lykkið saman undir handvegi og gangið frá endum.
Þvoið peysuna í volgu sápuvatni og leggið til þerris.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

Nýjar fréttir