6.1 C
Selfoss

Lambakóróna, parmesan kartöflur, brokkolísalat og köld ranch sósa

Vinsælast

Sigurður Sæmundsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég vil byrja á því að þakka Hyrti Benedikssyni fyrir tilnefninguna Sunnlenski matgæðingurinn. Ég er svolítið fyrir að hafa matargerð einfalda en hún má alveg taka tíma svo fremi að maður hafi gaman að því sem verið er að gera og ekki er verra að vera í góðum félagsskap á meðan. Það sem ég æta að ‚töfra fram‘ er lambakóróna (3 stk) með parmesan kartöflum, brokkolisalati og kaldri Ranch sósu fyrir 4-6 manns. Ég byrja á því að gera smá kryddlög fyrir kórónurnar.

Lambakóróna

Kryddlögur:

Olívuolía
1 stór saxaður hvítlauksgeiri
Timian,  rósmarín, svartur pipar, ásamt Maldon salti og smá myntu.

Ég sker tígla í fituna á kórónunni og smyr kryddinu á og læt standa við stofuhita meðan ég undirbý salatið og sósuna.

Kjötið er brúnað á heitri pönnu á öllum hliðum með smjöri og olívuolíu og gott að ausa því yfir á meðan. Set síðan í eldfast mót í forhitaðan ofn 180° í 15 – 20 mínútur kjarnahiti 56 – 58° Læt kjötið hvíla smá stund eftir að það er komið úr ofninum.

Ranch sósa köld

2,5 dl ab mjólk (súrmjólk)
3 msk sýrður rjómi
3 msk majones
3 msk steinselja fín söxuð
2 msk graslaukur fín saxaður
0,5 dl hvítvínsedik
2 stk pressaðir hvítlauksgeirar
Salt og pipar eftir smekk

Allt sett saman í skál nema saltið og piparinn sem notaður er til að bragðbæta sósuna. Gott er að láta sósuna í ísskáp og láta hana bíða í amk klst. áður en hún er borin fram. Einnig er hægt að kaupa tilbúna Ranch sósu í flestum verslunum.

Brokkolisalat

1,5 – 2 hausar brokkoli hausar (fer eftir stærð)
Hálfur rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
1 dl stórar rúsínur
0,5 dl sólblómafræ
250 ml sýrður rjómi
250 ml majones
250 gr bacon
0,5 msk sykur

Baconið er skorið í litla bita og steikt stökkt á pönnu, fitan síuð frá og látið kólna. Brokkolíinu dýft í sjóðandi vant í ca 20-30 sek til að fá á það fallegan grænan lit og kælt undir rennandi vatni. Stilkurinn fínt saxaður en sjálf blómin höfð grófari. Majonesi, sýrðum rjóma og sykri er hrært saman og laukurinn, sólblómafræin ásamt rúsínum og stilknum bætt útí og hrært vel saman. Grófa brokkolíið fer síðast útí og stökku baconinu stráð yfir salatið.

Parmesan kartöflur

Kartöflurnar skornar í báta og vel uppúr olívuolíu, kryddaðar með söxuðum hvítlauk (eftir smekk) og svörtum pipar. 1 dl af rifnum parmesan blandað saman við og bakaðar í ofni í 45 mín við 180° Gott er að hreifa við kartöflunum nokkrum sinnum á meðan þær eru að bakast. Það er við hæfi að renna þessum kræsingum niður með góðu rauðvíni að smekk hvers og eins. Verði ykkur að góðu.

Ég skora á hana Ingu Línberg vinkonu mína í Hveragerði sem töfrar fram kræsingar á hraða ljóssins eins og henni einni er von og vísa.

Nýjar fréttir