9.5 C
Selfoss

Indversk matreiðslunámskeið í Fjölheimum

Vinsælast

Í lok október og um miðjan nóvember ætlar Eva Dögg Atladóttir halda tvö spennandi námskeið í indverskri matargerðalist í Fjölheimum á Selfossi. Kennari á námskeiðinu er indverski meistarakokkurinn Megha Jhunjhunwala. Á fyrsta námskeiðinu sem haldið verður þann 29. október á milli kl 14-19  verður kennd nútíma indversk matargerð og er námskeiðið tilvalið fyrir grænkera. Annað námskeiðið fer fram þann 10. nóvember frá 16:30-18:30 og er hugsað fyrir börn á aldrinum 5 – 11 ára. Þau læra að gera súkkulaði og búa til ís.Námskeiðin verða haldin í Fjölheimum, Tryggvagötu 13 á Selfossi í glæsilegu eldhúsi.

Eva Dögg hefur ferðast víða um heiminn og af þeim stöðum sem hún hefur dvalið á er draumalandið Indland. „Á Indlandi er hægt að finna allt frá a til ö og þar var ég endalaust að upplifa nýja hluti. Menningin er heillandi og tungumálin áhugaverð, en á Indlandi eru skráð 22 þjóðmál. Ég kolféll fyrir austrænum siðum og ævintýraheimi þeirra, sem brýst fram í tónlistinni, fötunum og matnum. Eftir að ég flutti heim árið 2016 hefur Indverskum ferðamönnum fjölgað á Íslandi. Ég hef frætt indverska vini mína um Ísland og svarað spurningum þeirra sem hafa ferðast til landsins síðustu ár,“ segir Eva Dögg.

Einn vina Evu sem komu til landsins var hin indverska Megha Jhunjhunwala. „Hún kom hingað sumarið 2019 og hreifst gjörsamlega af landinu og maðurinn hennar líka. Þau elska Ísland! Maðurinn hennar er hönnuður og heitir Rohit Dhamija. Í sumar hafði Megha aftur samband við mig og sagði mér að hún vildi koma aftur til Íslands en í þetta sinn langaði hana að prófa að halda matreiðslunámskeið fyrir íslendinga. Megha hefur í fjölda ára verið meistarakokkur á Indlandi. Hún lærði matreiðslu í París hjá Le Cordon Bleu og var einn keppanda í Masterchef India. Hún hefur verið prófessor í Apeejay Institute of Hospitality og rekur sitt eigið fyrirtæki sem heitir Hearth & i. Nafnið táknar blöndu af hjarta og jörð í orðinu Hearth.“

Megha er líkt og Eva Dögg andlega sinnuð, stundar yoga, er með djúpa tengingu við náttúruna, elskar að ferðast og að kynnast öðrum menningarheimum. „Vegna þess tengjumst við Megha svo sterkum böndum ogskiljum hvor aðra svo vel. Við höfum báðar svo mikla ævintýraþrá og þegar Megha spurði mig hvernig hún gæti farið að því að halda matreiðslunámskeið á Íslandi þá sló ég til,“ segir Eva að lokum.

Fyrir frekari upplýsingar og skráningu á námskeiðin er bent á tölvupóstfangið indigoselfoss@gmail.com eða síma 787 4812.

Nýjar fréttir