1.7 C
Selfoss

Bláskógabyggð innleiðir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Vinsælast

Sveitarfélagið Bláskógabyggð hefur ákveðið að hefja vinnu við mótun á stefnu sveitarfélagsins með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt árið 2015 og ná þau til ársins 2030. Markmiðin eru 17 talsins með 169 undirmarkmiðum og eru mælanleg sem þýðir að mögulegt er að bera saman þjóðir. Heimsmarkmiðin mynda jafnvægi á milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Á Íslandi erum við eingöngu búin að ná fjórum Heimsmarkmiðum af sautján að fullu. Ný skýrsla sem raðar löndum á lista eftir því hvar þau eru stödd þegar kemur að framgangi Heimsmarkmiðanna sýnir að Ísland er sem stendur í 22. sæti. Bláskógabyggð ætlar að leggja sitt af mörkum til þess að við Íslendingar náum hinum þrettán Heimsmarkmiðunum fyrir árið 2030. Til þess þurfa allir að bretta upp ermar.

Heimsþekktar náttúruperlur

Bláskógabyggð varð til sem sveitarfélag árið 2002 við sameiningu þriggja sveitarfélaga, Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Fjölmargar náttúruperlur og sögustaði er að finna í Bláskógabyggð og eru þekktastir þeirra Þingvellir, Geysir, Gullfoss, Haukadalur, Laugarvatn og Skálholt. Þingvallaþjóðgarður er einstakur staður vegna sögu og náttúru. Þar var Alþingi stofnað 930 og margir merkisviðburðir í sögu þjóðarinnar hafa átt sér stað á Þingvöllum í aldanna rás. Sveitarfélaginu er því falið að gæta allra þessara náttúruperla fyrir þjóðina. Sveitarfélagið ætlar að nýta Heimsmarkmiðin og sjálfbæra þróun til þess að varðveita þessar náttúruperlur og fólkið sem þar býr. 

Tökum höndum saman

„Það er mjög mikilvægt að sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar taki höndum saman um að vinna í anda Heimsmarkmiðanna. Við munum í nýrri stefnu okkar taka mið af þessum mikilvægu markmiðum. Við erum rétt að leggja af stað og leggjum áherslu á að fjölbreyttur hópur komi að vinnunni, sveitarstjórn, nefndarmenn og íbúar svæðisins. Við erum að móta stefnu til framtíðar og ætlum að taka mið af sjálfbærri þróun.” segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar.

Heildarstefna sem aðrar stefnur taka mið af

„Framsýn sveitarfélög eins og Bláskógabyggð sjá mikilvægi þess að sveitarfélög leggi sitt af mörkum. Bláskógabyggð tók síðastliðið ár þátt í sameiginlegu verkefni á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga um innleiðingu Heimsmarkmiðanna og hefur lagt mikinn metnað í greiningu á stefnum sveitarfélagsins. Það var því gott næsta skref að móta heildarstefnu með Heimsmarkmiðin að leiðarljósi sem allar aðrar stefnur sveitarfélagsins taka mið af,” segir Eva Magnúsdóttir, stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Podium ehf. sem leiðir vinnuna fyrir sveitarfélagið.

Nýjar fréttir