6.1 C
Selfoss

Jól í skókassa

Vinsælast

Þó enn sé október þá er farið að bóla á jóladóti í verslunum, auglýsingar um jólatónleika heyrast og sjást víða og kórar landsins æfa jólalögin af kappi. Nokkrir eru eflaust búnir að kaupa jólagjafirnar og einhverjir eru farnir að stelast til að spila eitt og eitt jólalag. Heyrst hefur að sumir hefja jólaundirbúninginn einmitt um þetta leyti með því að útbúa fallega jólagjöf í skókassa sem send verður til Úkraínu á vegum KFUM og K.

Verkefnið Jól í Skókassa hefur verið starfrækt á Íslandi síðan 2004. Fyrir jólin 2021 fóru 4018 skókassar frá Íslandi til Úkraínu og þar af voru 166 frá Selfossi.

Í Úkraínu búa um 46 milljónir manna. Ekki nóg með að það ríki stríð þar núna þá hefur atvinnuleysi verið mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem skókössunum verður dreift ríkir mikil örbirgð, þeir fara meðal annars á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Öllum er velkomið að leggja sitt á vogaskálarnar með því að útbúa skókassa. Til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Frekari upplýsingar um innihalda og frágang kassanna er að finna inni á heimasíðunni www.KFUM.is/skokassar.

Selfosskirkja tekur á móti tilbúnum skókössum í verkefnið og kemur þeim áfram.

Tekið er á móti skókössunum á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum á milli kl. 13:00-16:00. Eins má skila þeim á sunnudögum á leiðinni í messu eða sunnudagaskólann.

Síðasti skiladagur er fimmtudagurinn 3. nóvember.

Nýjar fréttir