8.4 C
Selfoss

Endurnýjuð brú á gamalli þjóðleið

Þann  1. október var formlega opnuð ný brú á fornri þjóðleið sem liggur meðfram Stóru Laxá og Hvítá, um lönd jarðanna Eiríksbakka og Iðu í Biskupstungum. Þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra er mikill hestamaður og býr handan Stóru Laxár, fékk hann þann heiður að klippa á borða nýju brúarinnar sem kemur í stað trébrúar sem var orðin feyskin og hættuleg yfirferðar.

Brúin er jafnframt óður til þeirra sem gengir eru og bjuggu á þremur bæjum í svokölluðum Iðukrók þ.e. á Eiríksbakka, Helgastöðum og Iðu. Vinátta og samheldni ríkti á milli bæjanna og brúin er að vissu leyti minnisvarði um allt það góða fólk. Hún er smíðuð af frumkvæði og í góðri samvinnu af núverandi ábúendum þessara bæja, þeim Guðmundi Ingólfssyni á Iðu og Kristjáni Skaphéðinssyni á Eiríksbakka. Auk þeirra komu Ólafur Gunnarsson á Helgasstöðum og Loftur Ingólfsson frá Iðu til aðstoðar við að koma brúnni fyrir.

Öll vinna sem innt var af hendi við brúargerðina er sjálfboðin og unnin af ánægju en Hestamannafélagið Jökull og Hrossaræktarbúið í Vesturkoti lögðu fram styrki til efniskaupa. Vinnan við brúna fór fram á hlaðinu á Iðu og síðan var hún flutt á vagni og komið fyrir á áfangastað. Rétt er að geta þess að allt efni sem notað var í brúarsmíðina er endurunnið, efni sem var hreinsað og endurnýtt. Má þar nefna að brúin sjálf er að uppistöðu úr gömlum malarvagni 8 metrar að lengd. Gólfborðin eru steypumót og fleira mætti telja. Hlið er á miðri brúnni hannað og smíðað af Guðmundi upp úr gamalli hitagrind úr gróðurhúsi. Kúla af gírstöng er endurnýtt til að loka hliðinu. Á hliðum brúarinnar eru ryðfrí rör úr mjólkurtanki sem gegna tvíþættu hlutverki þ.e. að vera sæti fyrir fánastangir á hátíðardögum og til að bera merki hennar. Lykkjur, gamlir varahlutir úr New Holland dráttarvélum, eru soðnar á báða enda brúarinnar svo hægt sé að binda þar hross. Þá eru skilti úr ryðfríu stáli sem vísa veginn og áletrun þar sem mönnum er óskað góðrar ferðar og upplýsingar um hvenær brúin var gerð. Skiltin eru útbúin og gefin af Sigurði Karlssyni sem er tengdasonur á Eiríksbakka.

Þessi forna þjóðleið sem liggur eftir bökkum Stóru-Laxár og Hvítár er nokkuð fjölfarin af bæði göngu- og hestafólki. Áður var þetta leið fólks sem kom austan að og átti leið um lögferjuna yfir Hvítá hjá Iðu. Núverandi þjóðvegur kom í gagnið árið 1952 og brúin yfir Hvítá hjá Iðu kom árið 1957. Þessi forna þjóðleið var oft á tíðum ill yfirferðar vegna vatns sem kemur úr austurhlíðum Vörðufells og leitar eftir farvegum út í næstu á. Á leiðinni voru illfærir ósar og má lesa á vefsíðunni laugaras.is bréfaskriftir til Sýslunefndar Árnessýslu frá Skúla Árnasyni héraðslækni á árunum eftir 1900 þar sem hann biður um að byggðar verði brýr yfir vatnsmestu ósana. Fyrst voru byggðar þar trébrýr og síðar fimm steinbrýr og eru minjar sumra þeirra enn sýnilegar.

Við opnunina flutti Bragi V. Gunnarsson formaður Hestamannafélagsins Jökuls ávarp og þakkaði fyrir þetta sjálfboðna framtak heimamanna til úrbóta á þessari skemmtilegu reiðleið. Einnig flutti Elinborg Sigurðardóttir á Iðu ávarp þar sem hún fór yfir sögu þessarar þjóðleiðar og brúargerðina. Hún endaði mál sitt með eftirfarandi orðum: ,,Brýr tengja landsvæði, samskipti fólks og komandi kynslóðir. Megi þessi brú verða til farsældar öllum þeim sem um hana fara.”

Fleiri myndbönd