9.5 C
Selfoss

Smiðjudagar í Reykholtsskóla

Vinsælast

Grunnskólarnir í Uppsveitum, Kerhólsskóli á Borg, Reykholtsskóli, Bláskógaskóli Laugarvatni og Flúðaskóli, standa í sameiningu að hluta þess valgreinanáms sem nemendum á unglingastigi skólanna stendur til boða.

Þrisvar á ári eru haldnir smiðjudagar sem eru tveir langir samliggjandi skóladagar þar sem unglingarnir leggja stund á nám sem tengist áhugasviði hvers og eins. Með því að sameinast um þennan þátt námsins tekst þessum fámennu skólum að bjóða upp á fjölbreyttara úrval valgreina en þeim væri annars mögulegt að gera.

Inn á milli námslotanna er ungmennunum gefið rými til þess að blanda geði við aðra krakka og kynnast jafnöldrum úr nágrannaskólunum í gegnum annars konar samskipti en bara þau sem verða til í gegnum samveru í kennslustundum. Félagsmiðstöðvarnar taka jafnframt þátt í verkefninu.

Farsælt samstarf

Skólarnir í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð hafa um nokkurra ára skeið átt í samstarfi um smiðjurnar. Flúðaskóli var nú með í fyrsta sinn. Í Flúðaskóla ganga unglingar úr Hrunamannahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þaðan kemur álíka stór hópur og úr hinum skólunum til samans.

Þegar fyrsta smiðja skólaársins var haldin í Reykholtsskóla á dögunum var framboð námsgreinanna fjölbreyttara en nokkru sinni. Börnin völdu á milli 9 smiðja sem allar falla í flokka listgreina, verkgreina eða lífsfyllingar (eins og það heitir í Aðalnámskrá grunnskóla). Í þetta sinn hétu smiðjurnar: Leiklist, Samspil í hljómsveit, Flugdrekagerð (myndlist og vísindi), Tálgað í tré, Hnýtingar (Macrame knots), Boltasmiðja (körfubolti, knattspyrna og skák), Crossfitsmiðja (crossfit, stökkfimleikar og skák), Rafíþróttir og Matreiðsla.
Auk námsins í smiðjunum fengu börnin fræðslu um hinseginleikann á vegum Samtakanna 78.

Nemendur og starfsfólk Uppsveitaskólanna létu vel af því hvernig til tókst og ánægjan skein úr hverju andliti eins og meðfylgjandi myndir bera vitni um.
Næstu samstarfsverkefni skólanna fjögurra eru menningarferð til höfuðborgarinnar í nóvember sem einnig verður nýtt til náms- og starfskynninga og smiðjudagar á Borg í febrúar og að Laugarvatni í maí.

Myndirnar tóku Karl Hallgrímsson og Lára Bergljót Jónsdóttir.

Nýjar fréttir