11.7 C
Selfoss

Lokahelgi Hafsjós – Oceanus á Eyrarbakka

Vinsælast

Teboð með hænum og listasmiðja

Laugardaginn 1. október verður gestum boðið í kúmenkaffi inni í borðstofu Hússins á Eyrarbakka í samveru með listaverkinu „Teboð“ eftir Hafdísi Brands. Kóresk listasmiðja verður svo opin fyrir gesti daginn eftir á sunnudaginn. Þar er fetað í fótspor listamannsins Sung Baeg frá Suður Kóreu sem í sumar kenndi starfsfólki að þrykkja með bleki á tau. Þessir viðburðir Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka eru liðir í því að kveðja hina viðamiklu listasýningu Hafsjó – Oceanus en þetta verður síðasta sýningarhelgin.

Hafsjór – Oceanus er afrakstur vinnu þeirra 20 listamanna sem tóku þátt í samnefndri listahátíð  í sumar. Sýningarstjóri er listakonan Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir og listafólkið kom frá Nepal, Suður Kóreu, Þýskalandi, Spáni, Ítalíu, Mauritius, Indlandi, Litháen, Póllandi, Frakklandi og Íslandi.  Sýningin teygir sig um öll húsakynni byggðasafnsins og umhverfi þess og er sjón sögu ríkari.

Safnið verður opið um helgina kl. 13 – 17 og aðgangur ókeypis. Menningarmánuðurinn október í Árborg  hefst þessa sömu helgi og verður margt um að vera hjá safninu í október.

Nýjar fréttir