10 C
Selfoss

Styrktartónleikar Sigurhæða í Midgard

Vinsælast

Föstudaginn 30. september klukkan 20:00 verða haldnir styrktartónleikar fyrir Sigurhæðir í Midgard base camp á Hvolsvelli. Sigurhæðir eru mikilvægur hlekkur í Sunnlensku samfélagi en samtökin bjóða upp á þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Það varð ljóst strax frá stofnun Sigurhæða að þörfin á slíkri þjónustu á Suðurlandi var brýn en aðsóknin fór langt fram úr væntingum á fyrsta starfsárinu. Gert var ráð fyrir 64 skjólstæðingum en raunin varð sú að 101 kona höfðu nýtt sér þjónustu Sigurhæða í alls 409 viðtölum við lok fyrsta starfsársins.

Á bakvið tónleikana stendur hópur af fimm nýnemum í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum, en hópurinn samanstendur af Guðbjörgu Pálsdóttur iðjuþjálfa, Ingibjörgu Sólrúnu Sigmarsdóttur, klippara á Stöð 2, Jónasi Yngva Ásgrímssyni, viðskiptafræðingi hjá DK hugbúnaði, Ólöfu Söru Garðarsdóttur, ferðaráðgjafa hjá Midgard og Unni Jónsdóttur, klippara á Stöð 2.

Öllu gríni fylgir einhver alvara

Hópurinn rataði saman á nýnemadögum á Hólum í byrjun september „Við vissum að fyrsta verkefnið væri að halda viðburð, við vissum ekki hvort við ættum að halda teboð eða einhvern stórviðburð en í upphafi höfðum við verið að grínast með að „go big or go home“ og halda bara tónleika. En grínið varð á endanum að alvöru, við ákváðum að stökkva bara í djúpu laugina og læra sem mest af því og við höfum klárlega lært mikið nú þegar. Þessi vegferð tekur yfirleitt nokkra mánuði hjá þeim sem standa fyrir sambærilegum viðburðum, en við erum að gera þetta á innan við mánuði, og það í fyrsta skipti,“ segja Guðbjörg og Ingibjörg léttar í bragði.

Allir Sunnlendingar ættu að þekkja Sigurhæðir

Hópurinn þurfti ekki að hugsa sig lengi um þegar kom að ákvarðanatöku um hvaða málefni þau vildu styrkja. „Við vorum í öllum tilfellum að fara að gefa vinnuna okkar svo við vildum að einhver gæti notið góðs af henni. Jónas hafði heyrt um Sigurhæðir á fræðslukvöldi hjá Oddfellow nýlega, þar sem hann fékk stóran bækling þar sem farið var yfir störf Sigurhæða og fannst það verðugt málefni. Fæst okkar höfðu heyrt um Sigurhæðir og eftir að hafa kynnt okkur göfuga starfið sem þau vinna þar vorum við öll sammála um að það þyrfti að kynna Sigurhæðir betur fyrir Sunnlendingum, þetta ætti að vera eitthvað sem öll vissu af,“ segja stelpurnar.

Veisla fyrir augu og eyru

Listamennirnir sem koma fram á tónleikunum eru ekki af verri endanum en Bessi hressi ætlar að skemmta gestum á milli þess sem Arnar Jónsson, Erla Ösp, Írena Víglunds, Einar Þór og Bjarni, Herdís Rúts og Glódís bjóða upp á tónlistarveislu. Ágóðinn af miðasölunni mun renna óskiptur til Sigurhæða en hægt er að kaupa miða á tix.is

Tónleikarnir byrja kl. 20:00 en húsið opnar kl. 19:30. Takmarkað sætapláss er á tónleikunum og því mælt með að ná sér í miða sem fyrst!

Nýjar fréttir