11.1 C
Selfoss

Gullbrá

Vinsælast

Hér er uppskrift að einstaklega mjúkri og þægilegri peysu sem auðvelt er að prjóna. Notaðar eru tvær garntegundir sem fást í fjölda fallegra lita; Miranda sem er blanda af bómull, hör og acryl og Anisia sem er kid-mohair og polyamid. Peysan er prjónuð ofan frá og niður og auðvelt er að síkka hana eða stytta að vild.

Stærðir: S (M) L

Efni: 4 (5) 6 dk Miranda, 4 (5) 6 dk Anisia, 40 og 60/80 sm prjónar no 5,  prjónamerki, prjónanælur.

Aukið er út þannig að þræðinum á milli lykkjanna er lyft upp, hann krossaður og prjónað slétt. Prjónaðar eru rendur, til skiptis 2 umf. sl. með tvöföldu Anisia og 5 umf. sl. með 1 þræði af Miranda og 1 þræði af Anisia.

Fitjið upp 70 (74) 78 l með tvöföldu Anisia, prjónið 1 umf. slétt prjón. Prjónið 5 umf. brugnar með 1 þræði af Miranda og 1 þræði af Anisia.

Aukið nú út um 20 (22) 24 l jafnt yfir prjóninn þannig að 90 (96)102 l séu á prjóninum. Gott er að setja prjónamerki við upphaf umferðar.

Byrjið á að prjóna 2 umf. með tvöföldu Anisia og athugið að eftir fyrstu umferð er aukið út eftir 3ju hverja l um 1 l. Nú eru 120 (128) 136 l á prjóninum.

Prjónið áfram samkvæmt randamynstri 4 umferðir. Þá er aukið út eins og áður en nú eru 4 l á milli útaukninga, 150 (160) 170 l á prjóninum.

Prjónið 5 umf. aukið út og hafið 5 l á milli útaukninga 180 (192) 204 l á prjóninum.

Prjónið 9 umf. aukið út og hafið 6 l á milli útaukninga 210 (224) 238 l á prjóninum.

Prjónið 10 umf. aukið út og hafið 7 l á milli útaukninga 240 (256) 272 l á prjóninum.

Prjónið 11 umf. aukið út og hafið 8 l á milli útaukninga 270 (288) 306 l á prjóninum.

Prjónið 12 umf. aukið út og hafið 9 l á milli útaukninga 300 (320) 340 l á prjóninum.

Prjónið 0 (4) 8 umf til viðbótar (munið að halda randamynstrinu) og þá eru lykkjur fyrir ermar settar á nælu þannig: Prjónið 90 (96) 102 l setjið næstu 60 (64) 68 á nælu, prjónið 90 (96) 102 l og setjið næstu 60 (64) 68 l á nælu.

Þegar komnar eru 12 umf. frá síðustu aukningu er aukið út með 12 l á milli, 195 (208) 221 l á prjóninum.

Prjónið 13 umf. aukið út og hafið 13 l á milli útaukninga 210 (224) 238 l á prjóninum.

Þegar búið er að prjóna alls 12 (13) 14 einlitar rendur er prjónað með einum þræði af hvoru garni þar til bolur mælist frá handvegi 40 (43) 46 sm. Í síðustu sléttu umferðinni er lykkjum fækkað þannig að 9+10 (7+8) og í stærð L eru  til skiptis 7+8 og 8+9 lykkjurnar prjónaðar saman og eru þá 189 (196) 210 l á prjóninum. Prjónið nú 5 umf. brugnar, klippið Miranda garnið frá og prjónið eina umf. slétta með tvöföldu Anisia. Fellið laust af með brugnum lykkjum.

Ermar: Takið 60 (64) 68  l af prjónanælunni og takið upp 2 l í ermagapinu. Haldið áfram með rendur eins og á búk. Í áttundu hverri umferð eru 2 fyrstu og 2 síðustu l umferðar prjónaðar saman, alls 6 (6) 7 sinnum, 50 (52) 56 l á prjóninum. Prjónið þar til ermi mælist 32 (34) 36 sm, eða þar til æskilegri sídd er náð (athugið að nú er auðvelt að máta peysuna og meta hvaða ermalengd skuli vera). Prjónið þá 5 umf. brugnar, klippið Miranda garnið frá og prjónið eina umf. slétta með tvöföldu Anisia. Fellið laust af með brugnum lykkjum.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir.

Nýjar fréttir