1.1 C
Selfoss

Hella- og Jöklabíó RIFF

Vinsælast

Verið er að leggja lokahönd á dagskrá RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Hinar árlegu sérsýningar RIFF, sem haldnar eru á óvenjulegum stöðum, gefa áhorfendum tækifæri til að njóta kvikmyndamenningar í aðstæðum sem magnar áhrif myndanna sem sýndar eru í hvert skipti. Á þessum dagskrárlið er lögð áhersla á að para saman viðeigandi kvikmyndir og umhverfi. Sérsýningar RIFF seljast að venju upp á skömmum tíma því takmarkað sætaframboð er á hverja sýningu. Í ár verður hið sérstæða jarðfræðilega umhverfi Íslands nýtt til hins ítrasta.

Hellabíó í Raufarhólshelli

Hryllingsmyndin Niðurleiðin, The Descent, í leikstjórn Neil Marshall, verður sýnd í Raufarhólshelli á RIFF 2022, þann 1. október klukkan 18:15 og aftur klukkan 20.15 Myndin fjallar leiðangur sex kvenna um helli og átök þeirra við verur sem leynast í flóknu hellakerfi neðanjarðar. Hvergi er meira viðeigandi að horfa á myndina en í sambærilegu umhverfi og myndin gerist í og magnar það upplifun áhorfandans.

Fyrr um daginn, klukkan 16:30  verður einnig verður boðið upp á fjölskyldubíó í Raufarhólshelli þar sem öll fjölskyldan getur notið saman sýningar á teiknimyndinni Eyjan hans Múmínpabba. Myndin fjallar um ævintýri múmínpabba á æskuárum hans og þegar hann hittir Múmínmömmu í fyrsta skipti og er sagan hluti af hinum klassíska sagnabálki Tove Jansson um Múmínálfana. Myndin er í leikstjórn Ira Carpelan frá árinu 2021. Hér er ómetanlegt tækifæri til að skapa minningar og njóta hins norræna sagnaarfs í stórbrotnu umhverfi.

Aðeins er um þessar þrjár sýningar að ræða og takmarkaður sætafjöldi í boði. Mikilvægt er að klæða sig vel fyrir hellasýningar. Raufarhólshellir er aðeins í 40 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík

Jöklabíó í Langjökli

Heimildamyndin Inn í jökulinn, Into The Ice, í leikstjórn hins danska Lars Ostenfeld verður sýnd í íshellinum í Langjökli. Hér er á ferð stórkostlegt kvikmyndaævintýri á Grænlandsjökli, með þremur fremstu jöklavísindamönnum heims, í leit að þeim svörum sem ísinn getur gefið okkur um loftslagsþróun, fortíð og framtíð. Þetta epíska stórvirki hvetur okkur til umhugsunar um ábyrgð okkar og umhverfi. Myndin var frumsýnd í mars 2022 og atriði í henni um ferðalag vísindamannanna inn í Grænlandsjökul má upplifa í keimlíku neðanjarðar umhverfi Langjökuls. Þetta er einstakt tækifæri til að skilja og skynja kvikmyndalistina til hins ýtrasta.

Lagt verður af stað í rútu frá Reykjavík klukkan 8 að morgni þriðjudags 4. október, frá Ráðhúsi Reykjavíkur. Til að komast að íshellinum er farið á sérútbúnum jöklabílum yfir ísbreiðuna á Langjökli. Mikilvægt er að klæða sig vel og viðeigandi fyrir þessa sýningu sem er 1 klst og 26 mín í flutningi. Áætluð koma aftur til Reykjavíkur er í eftirmiðdaginn.

RIFF, ein eftirsóttasta kvikmyndahátíð Norðurlanda

RIFF er nú haldin í nítjánda skiptið og fer hún fram í Háskólabíói við Hgatorg. RIFF hefur skipað sér á bás sem ein eftirsóttasta kvikmyndahátíð Norðurlanda. Meginhlutverk hátíðarinnar er að tryggja víðtækt úrval af hágæða, óháðri kvikmyndaframleiðslu með áherslu á unga kvikmyndagerðarmenn. Tilgangur RIFF er að vekja áhuga á kvikmyndamenningu, auka kvikmyndalæsi og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi með áherslu á alþjóðlega strauma. RIFF er einnig ætlað að skapa farveg fyrir viðskipti, nýsköpun, listsköpun, myndun alþjóðlegs tengslanets og samræðu við samfélagið og samtímann. RIFF er óháð hátið, rekin án hagnaðar.

 

Nýjar fréttir