12.8 C
Selfoss

Fyrsta frumkvöðlahádegi Hreiðursins

Vinsælast

Í vetur munu Háskólafélag Suðurlands og Hreiðrið frumkvöðlasetur standa fyrir mánaðarlegum frumkvöðlahittingi í hádeginu, fyrsta miðvikudag í mánuði. Fundirnir eru tækifæri til að heyra frá og ræða við Sunnlendinga sem tengjast frumkvöðlasenunni og atvinnulífinu almennt. Fundirnir eru  haldnir í Fjölheimum á Selfossi og eru líka í streymi á Facebook.

Fjóla S. Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar reið á vaðið á fyrsta hittingnum sem haldinn var miðvikudaginn 7. september og fór yfir fyrirhugaða vinnu við atvinnu- og nýsköpunarstefnu Árborgar. Fjóla lýsti því yfir að þessi stefna væri mjög mikilvæg fyrir sveitarfélagið til lengri tíma og kallaði eftir samtali og samvinnu um gerð hennar frá íbúum, fyrirtækjum og öðrum hagaðilum í Árborg. Það verður spennandi að fylgjast með þeirri vinnu og afrakstri hennar.

Viðburðurinn var vel sóttur, bæði á staðnum sem og í beinu streymi og sköpuðust góðar umræður. Upptöku frá fyrsta fundinum má finna inni á fésbókarsíðu Hreiðursins,  https://www.facebook.com/Hreidrid.frumkvodlasetur.

Næsta frumkvöðlahádegi verður miðvikudaginn 5. október og er þemað „Ungir atvinnurekendur“. Gestir fundarins eru þau Linda Rós Jóhannesdóttir eigandi Studio Sport og þeir Kjartan Ásbjörnsson og Guðmundur Helgi Harðarson eigendur GK bakarís. Þau munu segja okkur frá því hvers vegna þau tóku stökkið og gerðust atvinnurekendur og fræða okkur um helstu áskoranir tengdar því. Við hvetjum alla áhugasama um atvinnulíf og nýsköpun til að mæta, fræðast og taka þátt í umræðum.

Brynja Hjálmtýsdóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Háskólafélagi Suðurlands.

Nýjar fréttir