0 C
Selfoss

Margt á seyði á listalínu

Vinsælast

Myndlistarnemar FSu halda nú áfram uppteknum hætti við að setja upp sýningu í opinberu sýningarrými utan skólans. Það eru nemendur í framhaldsáföngum sem fá  þjálfun í uppsetningu og kynningu á eigin verkum. Að þessu sinni eru það nemendur í áfanganum Teikning sem er á þriðja þrepi sem sýna í Listagjánni á Bókasafni Árborgar 20. sept. – 20. okt. Verkin eru unnin á vorönn 2022.

Í áfangnum, sem er framhaldsáfangi í teikningu, er eingöngu unnið með blýant eins og nafnið bendir til. Nemendur hljóta þjálfun í alls konar fríhendis blýantsteikningum, skyggingum náttúru, hluta, manna og dýra og reyna að ná raunsæjum og súrrealískum áhrifum.

Það er margt á seyði á listalínu FSu og áhugi nemenda mikill.

Boðið er upp á fjölbreytt úrval áfanga sem opnir eru öllum nemendum burtséð frá því hvort þeir eru á brautinni eður ei. Það er alltaf gefandi og gaman fyrir kennsluna að fá eldra fólk með áhuga á skapandi greinum inn í hinn hefðbundna nemendahóp.

Meðal hins mikla úrvals af skapandi áföngum sem boðið er upp á í FSu ásamt myndlist má nefna stafræna smiðju, Fablab, ljósvakamiðlun, leiklist, textíl hönnun, grafíska hönnun og grafíska miðlun.

Veggjalistin er sýning sem alltaf er opin áhorfendum en um er að ræða vegg er vísar að bílastæði FSu og er tæplega 100 metra langur. Nú hefur hin hlið veggjarins bæst við þ.e. sá sem snýr að íþróttasvæðinu. Þar er íþróttaþema allsráðandi. Nemendur og kennarar í myndlist lögðust á eitt og útkoman er frábær útimyndlistarsýning.

Það er líka gaman að segja frá því að fyrrum nemandi okkar á listalínunni, Þóranna Ýr Guðgeirsdóttir hefur unnið að veggjalist víðs vegar um Selfoss.

Það er stefna okkar að miðla verkum nemenda sem víðast og til þess höfum við vefsíðu á Facebook sem heitir FSu myndlist, nýsköpun og miðlun. Þar má sjá úrval verka úr þeim áföngum sem við kennum. Bæði þjónar síðan sem kennsluefni og ekki síður fyrir listunnendur að njóta.

Myndlistarkennarar FSu
Lísa, Ágústa og Anna Kristín

Nýjar fréttir