10 C
Selfoss

Hoggið í sama knérunn

Vinsælast

Það hryggði mig að sjá að langhundur minn í Dagskránni í þar síðustu viku hafi orsakað þau viðbrögð Guðna Ágústssonar sem pistill hans í síðustu viku ber vitni um. Ég þurfti að lesa þrisvar til að glöggva mig.
Ekki vakti annað fyrir mér en að koma með nokkrar ábendingar í fullri vinsemd, því að baki pistli mínum bjó aðeins sú sama ástríða fyrir sögu og menningu Rangárþings sem Guðni hefur einnig gnótt af. Ekkert af því sómafólki sem Guðni telur upp ætlaði ég að svívirða, þótt ég hafi hnýtt örlítið í Framsóknarflokkinn sem slíkan, þá hefur hann nú lifað af stærri olnbogaskot en þetta.
En hafandi gengið bónleiður til búðar í málefnum Söguseturs eftir fundi með framsóknarmönnum, þá þótti mér rétt að halda því til haga, því mér hefur sýnst að áherslur og innri menning stjórnmálaflokka ráði stundum mun meiru en sjálft fólkið sem situr við stjórnvölinn. Ekki var heldur ætlun mín að tala niður ábendingar Guðna varðandi Kaupfélagssafnið, heldur benda á blákaldar staðreyndir og leggja til úrbætur.
En auðvitað skyldi óbreyttur alþýðumaður vara sig á því að fara að munnhöggvast við lífsreyndan stjórnmálamann, sem býr að mörgum orrahríðum úr sölum Alþingis; jafnvel þótt maður hafi aðeins ætlað sér að vera skemmtilegur þá er næsta víst að stjórnmálamaður stökkvi upp á nef sér og finni sig knúinn til að kveða viðkomandi í kútinn og hafa í hótunum. Þarf ég kannski að hafa næturvakt við ostabúrið mitt?

Af Merði Valgarðssyni

Það sem gladdi mig þó við austur Guðna var að hann skyldi líkja mér við Mörð Valgarðsson, þá persónu Njálu sem ein stendur sína pligt í gegnum þykkt og þunnt og gerir skyldu sína sem goði í Rangárþingi; jafnvel víg Höskuldar Hvítanesgoða var skylduverk, eða eins og þeir segja í Ameríku: Nothing personal, just business.
Þótt mér sé upphefð að því að vera borinn saman við feðgana á Hofi, þá veit ég ósköp vel að Guðni Ágústsson meinti það ekki þannig; maður getur jú tekið strákinn úr fjósinu, en maður tekur aldrei fjósið úr stráknum. Það gæti hins vegar orðið varasamt að ætla að særa til lífs þann hrikalega óvætt sem Mörður Valgarðsson var, ef marka má Njáluhöfund, því það er ómögulegt að vita hverju svo voldugur myrkradrottinn getur áorkað, gangi hann í endurnýjun lífdaga.

Friðrik Erlingsson

Nýjar fréttir