0 C
Selfoss

Afbragðsfín Kjötsúpuhátíð á Hvolsvelli

Vinsælast

Kjötsúpuhátíðin var haldin um síðastliðna helgi og tókst afbragðsvel. Veðrið lék við hvern sinn fingur og íbúar og gestir þeirra fjölmenntu á þá viðburði sem í boði voru um helgina. Forskot var tekið á sæluna á fimmtudaginn þegar ungviðið skemmti sér í Silent Diskó á Midgard og Pétur Jóhann kitlaði svo hláturtaugarnar um kvöldið í Hvolnum.

Súpuröltið margrómaða fór fram á föstudagskvöldið. Fimm súpustaðir voru í boði og eru þeim færðar kærar þakkir fyrir að taka þátt og bjóða upp á gómsætar súpur af ýmsu tagi sem og skemmtun og samveru. Mörg hundruð lítrum af súpu var ausið í skálar þetta kvöld og fjöldinn allur af fólki á ferð.

Á laugardaginn var pökkuð dagskrá með skemmtilegum viðburðum. Sláturfélag Suðurlands var að sjálfsögðu mætt á hátíðarsvæðið og bauð upp á tvennskonar súpur og fóru um 200 lítrar af súpu hjá þeim. Kunnum við þeim góðar þakkir fyrir súpurnar sem runnu vel niður. BMX bros og Latibær skemmtu áhorfendum, ungum sem öldnum og Guitar Islandica spilaði í Sveitabúðinni Unu. Vatnaboltinn var á sínum stað og voru keppendur og áhorfendur vel blautir eftir hörku leik. Markaðstjald, hoppukastalar og loftboltar settu svo svip sinn á svæðið.

Hátíðartónleikarnir á laugardagskvöldið voru frábærir og mikill fjöldi var mættur á miðbæjartúnið til að hlýða á þau Valborgu Ólafs, Sæbjörgu Evu, Maríönnu Másdóttur og Stefán Hilmarsson. Sérstakur leynigestur var Hlynur Snær Theodórsson sem fyrr um daginn hlaut viðurkenninguna Sveitarlistamaður Rangárþings eystra 2022. Eftir tónleika var brenna og flugeldasýning og kvöldinu var svo lokað með Kjötsúpuballi í Hvolnum þar sem Jónsi í Svörtum fötum og Unnur Birna trylltu ballgesti.

Á sunnudaginn fór Ísólfur Gylfi í Hvolsvallargöngu með hóp af fólki og Leikhópurinn Lotta kom á miðbæjartúnið og sló botninn í hátíðina.

Það er sannarlega ekki hægt að halda hátíð sem þessa nema af því að það er hópur góðs fólks sem að er boðið og búið að aðstoða. Sigurgeir Skafti Flosason sá um framkvæmd og utanumhald Kjötsúpuhátíðarinnar og fá hann og hans fólk miklar þakkir fyrir sín störf. Áhaldahús Rangárþings eystra vinnur baki brotnu við undirbúning hátíðarinnar en einnig meðan á hátíðinni stendur sem og við frágang eftir. Það mæðir oft mikið á starfsmönnum þar og fá þeir kærar þakkir fyrir sína aðkomu. Ekki má svo gleyma íbúum og gestum þeirra sem að gerðu hátíðina að þeirri skemmtun sem raun bar vitni.

Nýjar fréttir